137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

sumarnám í háskólum landsins.

24. mál
[15:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er mjög áhugavert að heyra hversu margir það eru sem hafa ákveðið að leggja stund á nám í sumar og vonandi geta sem flestir uppfyllt skilyrði um að fá námslán.

Ég hefði mikinn áhuga á að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort það sé líka verið að skoða það í samstarfi á milli menntamálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins að fólk geti hugsanlega fengið greiddar atvinnuleysisbætur á meðan það stundar nám, hvort heldur það er háskólanám eða framhaldsskólanám. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lagði fram þess háttar lagabreytingu á síðasta þingi sem hlaut því miður ekki brautargengi en mig minnir að ég hafi heyrt að áhugi sé innan ríkisstjórnarinnar að fara í þess konar breytingar að fólk geti fengið atvinnuleysisbætur alla vega tímabundið til að stunda nám.