137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

sumarnám í háskólum landsins.

24. mál
[15:06]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Ég velti líka fyrir mér einmitt þessum tengslum milli Atvinnuleysistryggingasjóðs og Lánasjóðs íslenskra námsmanna og finnst að það ætti að vera hægt að gera þetta með sambærilegum hætti og gert er hjá fyrirtækjum sem fá stuðning til að halda fólki í vinnu, að þetta sé kannski ekki síður eitthvað sem við getum lagt okkur fram um að breyta.

Mig langar hins vegar til að minnast á framhaldsskólanemana því að þeir gleymast svolítið og þetta bil sem sveitarfélögin standa frammi fyrir varðandi framhaldsskólanema sem ekki hafa vinnu. Vissulega eru sveitarfélögin að reyna, ég veit að mitt sveitarfélag ætlar að reyna að taka fólk í vinnu sem er á þessu aldursbili, 16 ára til tvítugs, sem hefur kannski ekki greiðan aðgang að vinnu. Mér finnst vera einblínt svolítið mikið á hvað eigi að gera fyrir háskólafólk en ekki fyrir framhaldsskólanema, (Forseti hringir.) en það er eitthvað sem við þurfum að bæta úr. Hér var minnst á fyrr í vikunni (Forseti hringir.) samstarf við Hugmyndaráðuneytið með ÍTR. Koma þar fleiri sveitarfélög að?