137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað verður það tímafrekt og það kallar á mannafla og það kallar á fjármuni ef menn ætla sér að sækja um aðild að Evrópusambandinu og gera það með þeim hætti að það uppfylli allar kröfur um vandvirkni og eftirgrennslan og rannsóknir af okkar hálfu. Það kostar að standa fast á sínum hagsmunum. Ég held hins vegar að þeir sem eru þeirrar skoðunar að það eigi að láta reyna á umsókn nákvæmlega núna telji að hagsmunirnir sem eru í húfi séu svo miklu meiri að það sé fararinnar virði.

Hvernig verður Evrópusambandið eftir 50 eða 100 ár? Ég hef ekki kristalskúlu til að spá inn í framtíðina en ég ímynda mér, ef Íslendingar mundu ganga í Evrópusambandið, að eftir 50 ár væri þar fyrir lifandis löngu komin á almennileg fiskveiðistjórnarstefna. Evrópusambandið væri hætt að ofveiða fiskstofna sína eins og núna og þau markmið sem við Íslendingar höfum að leiðarljósi í fiskveiðistjórn okkar yrðu þar orðin ofan á. En sennilega er svo langt þangað til að ég á ekki von (Forseti hringir.) á að hv. þm. Pétur H. Blöndal verði kommissar þá.