137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eftir 50 eða 100 ár verðum við, ég og hæstv. ráðherra, örugglega dauðir en íslenska þjóðin lifir áfram og það skiptir máli. Við þurfum að gæta að því við svona stóra ákvörðun hvernig íslensku þjóðinni vegnar í Evrópusambandinu eftir 50 eða 100 ár þegar sambandið er orðið pikkfast ríki eins og Bandaríki Norður-Ameríku.

Hæstv. ráðherra talaði um að ekki væri gert ráð fyrir þessum kostnaði eða mannafla í ráðuneytunum. Atvinnulífið er stopp, bankarnir eru stopp, heimilin eru stopp vegna þess að það vinnst ekki í ráðuneytunum. Og nú ætla menn að bæta við álagið í ráðuneytunum. Halda menn virkilega að það náist einhver lausn fyrir heimilin í landinu með þessu vinnulagi? Ég hef enga trú á því.

Ég held að það sé miklu mikilvægara núna að snúa okkur að þeim vanda sem virkilega blasir við hjá heimilunum en að grípa til töfrabragða eins og hér er um að ræða og víkja sér undan vandanum. Ég held að hæstv. ríkisstjórn sé haldin verkfælni. Hún tekur ekki á vandanum og er alltaf að koma með eitthvað nýtt og (Forseti hringir.) nýtt til að glíma við.