137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:30]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsögu hans vegna þessa máls sem auðvitað ber þess öll merki að það var sviðið út úr Vinstri grænum með heitum töngum og lagt fram í miklum ágreiningi milli ríkisstjórnarflokkanna. Það sér maður m.a. á greinargerðinni þar sem settir eru slíkir fyrirvarar að augljóst er að utanríkisráðherra sjálfur hefur engar áhyggjur af þeim málum. Hann kemur hingað upp til að mynda og segist telja að aðild feli ekki í sér nokkurt afsal eða framsal á málum sem snerta fiskveiðiauðlindina. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvernig væri samningur í því máli þannig úr garði gerður að hann gæti ekki stutt hann? Samningurinn sem talað er um í þingsályktunartillögunni að málsaðilar, hverjir sem þeir nú eru, geri fyrirvara við? Hvernig samningur er það við Evrópusambandið sem utanríkisráðherra mundi ekki geta stutt?