137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra kom einmitt að meinsemd þessa máls. Það hefur ekkert verið skilgreint hvaða hagsmuni menn ætla að verja í þessum viðræðum og í því liggur grundvallarmisskilningur hæstv. utanríkisráðherra á muninum á þessari tillögu og þeirri sem lögð var fram í morgun. Hún snýst einmitt um það hvað þurfi að liggja fyrir áður en menn taka ákvörðun af þeim toga sem hér er farið fram á að þingið geri. Hvaða hagsmunir eru það sem menn sjá mikilvægasta og hvernig ætla menn að verja þá.

Það er augljóst að hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að það sé allt í langi að ganga inn í Evrópusambandið eins og það er þannig að maður hefur ekki miklar væntingar vegna þeirra viðræðna sem eru að fara af stað um að hann muni berjast gegn þeim samningi, sama hvernig hann lítur út vegna þess að hann er sáttur við Evrópusambandið, sjávarútvegsstefnu þess eins og hún er nema hann sé tilbúinn til að koma hingað upp og segja hvaða atriði það eru sem hann telur svo mikilvæg að þau verði samningsbrjótar ef ekki næst samstaða um þau í viðræðum við Evrópusambandið.