137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég lýsti því nákvæmlega í ræðu minni áðan hvaða vankantar ég tel að séu á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Ég sagði hins vegar líka að þróunin innan sambandsins hefði verið okkur hagkvæm síðustu árin og sérstaklega fréttirnar í síðustu viku þar sem bókstaflega var tekið undir með vissum hætti af sterkum þjóðum innan sambandsins ákveðin sjónarmið sem eru lykilsjónarmið. Í framhaldi af því sagði ég að þess vegna væri rökrétt að einmitt núna létum við á þetta reyna. Þarna virðist vera að rakna upp ákveðin fyrirstaða sem hefur verið innan Evrópusambandsins.

Hvernig sé ég samninga fyrir mér? Þingið ræður, löggjafinn ræður. Ef löggjafinn veitir samþykki sitt fara menn í það að undirbúa slíka samninga. (Gripið fram í.) Hvernig gera menn það? Menn gera það í samráði framkvæmdarvaldsins og löggjafans eins og hefur komið fram í umræðunni og menn gera það með því að tala við alla þá hagsmunaaðila sem hagsmuni eiga að verja. (Forseti hringir.) Ítarlegt samráð milli þings, framkvæmdarvalds og hagsmunaaðilanna. Þannig mótum við samningsmarkmiðin á grundvelli þess sem flokkarnir hafa nú þegar sagt.