137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:38]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég á erfitt með að túlka svar hæstv. ráðherra gagnvart því hvort ríkisstjórnin sé fallin eða ekki að hans mati ef þessi tillaga verður ekki samþykk, en það er alveg ljóst að Samfylkingin hefur lagt ofurkapp á að ná þessu máli í gegn og því yrði það að sjálfsögðu mikið áfall fyrir þann flokk ef það næðist ekki.

Um seinna svarið vil ég segja að ég er sammála hæstv. utanríkisráðherra. Það er miklu veikara fyrir samningsstöðu okkar að fara í aðildarviðræður ef ekki er meiri hluti þings á bak við það umboð. Það þýðir að hæstv. utanríkisráðherra og Samfylkingin ásamt Vinstri grænum verða að sýna geysilegan lipurleika í þinginu. Hér þarf að koma til móts við hina flokkana til að geta skapað þetta sterka samningsumboð. Þessi staða krefst þess að ríkisstjórnin geri allt sem í hennar (Forseti hringir.) valdi stendur til að skapa sátt í þinginu þannig að við getum sem flest að lokum greitt atkvæði með aðildarumsókn og fylgt henni svo hart eftir í viðræðum.