137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að fela þinginu að fjalla um þrátt fyrir að ekki sé samstaða í ríkisstjórn efnislega um málið.

Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir tveir eru hvor með sína stefnuna í málinu um hvort sækja beri um aðild. Það er í sjálfu sér ágætt að ríkisstjórnin taki þá ákvörðun að leggja málið í dóm þingsins og kanna hvort meiri hluti sé á þinginu fyrir því að ríkisstjórnin fái þetta umboð. En það verður ekki gert nema nægilega sé vandað til málsins. Það hefur alls ekki verið gert í því þingmáli sem við ræðum um. Það er meginástæða þess að á þinginu í morgun var lögð fram ný þingsályktunartillaga studd þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um það hvernig menn undirbúa mál af þessari stærðargráðu og þessum toga.

Fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra áðan að hann teldi afar mikilvægt að búið væri að skilgreina skýrt hvaða hagsmuni menn ætluðu að verja í mögulegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið áður en menn legðu af stað í þessa vegferð. Í þingsályktunartillögunni sem við höfum til umfjöllunar er beinlínis gert ráð fyrir því að þingið samþykki að fela ríkisstjórninni að fara í viðræðurnar án þess að hafa neitt um það að segja hvaða skilyrði og hvaða skilmálar fylgja slíku umboði eða hvaða skilyrði eru veitt fyrir því að viðræðurnar fari af stað varðandi þá hagsmuni sem á að verja.

Í þingsályktunartillögunni sjálfri segir að haft verði víðtækt samráð við hagsmunaaðila um samningsmarkmiðin. Þingið á fyrst að ákveða að veita umboðið og svo ætlar ríkisstjórnin eftir á að tala við einhverja hagsmunaaðila um hvaða hagsmuni á að verja í viðræðunum. Fyrst á þingið að gefa grænt ljós, svo ætlar ríkisstjórnin að tala við einhverja hagsmunaaðila.

Þetta þingmál í heild sinni er með mestu ólíkindum, virðulegi forseti, vegna þess hversu kastað hefur verið til höndunum við samningu þess. Við heyrðum mjög berlega í framsöguræðu hæstv. utanríkisráðherra að hann hefur ekki þær áhyggjur sem birtast í skjalinu sjálfu um þau atriði sem talað er um að þurfi sérstaklega að verja. Hann er þeirrar skoðunar að það sé ekkert að sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, það sé ekkert að óttast ef við göngumst undir hana. En það er einmitt sjávarútvegsstefnan sem hefur verið ein helsta ástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Í þeirri umræðu spretta oft margir upp og segja: Það má ná svo góðum samningum um þetta mál. Við skulum láta á það reyna og semja bara um það til og frá.

Í skýrslu Evrópunefndarinnar frá árinu 2007 voru í það minnsta fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, þar með talinn hæstv. núverandi menntamálaráðherra, þeirrar skoðunar að ómögulegt væri að fá varanlega undanþágu frá fiskveiðistefnu Evrópusambandsins og eins væri ómögulegt að fá íslensku fiskveiðilögsöguna skilgreinda sem sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði. Maður veltir því fyrir sér hvort það geti mögulega verið krafa hæstv. utanríkisráðherra að þetta tvennt nái fram að ganga. En hann veigrar sér auðvitað við því, sveigir fram hjá öllum spurningum um hvað hann telur vera mikilvægast til að ná samningum um í þessu efni.

Í þessari þingsályktunartillögu er síðan lagt upp með að ríkisstjórninni verði falið að ganga frá samningi sem hún síðan ætlar mögulega ekki að styðja í framhaldinu. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvað átt er við í þingskjalinu þegar kemur að þessu atriði. Er sem sagt verið að ræða um að utanríkisráðherra ætli að leiða til lykta og staðfesta með undirskrift sinni og örugglega með handabandi líka samninga við Evrópusambandið en áskilja sér síðan rétt til að snúa sér við og koma heim til Íslands og berjast gegn niðurstöðunni? Er virkilega átt við það í þingsályktunartillögunni? Á ég að trúa því að mönnum sé alvara með að standa þannig að málum? Maður hefði þó frekar ætlað að sá sem ábyrgð ber á viðræðunum mundi segja að hér ljúki viðræðunum og samningar takist ekki.

Við hljótum að vera sammála um það á þinginu að ef við ætlum að veita eitthvert umboð af þessum toga að við ætlumst til þess að þeir sem klára samninginn komi heim og berjist fyrir því að sú niðurstaða verði samþykkt á Íslandi. Ég trúi því ekki upp á hæstv. utanríkisráðherra að hann ætli að áskilja sér rétt til þess að skipta um skoðun eftir að hann kemur aftur heim.

Hverjir eru þeir málsaðilar sem rætt er um í þingsályktunartillögunni? Erum við ekki öll sammála um hvers konar plagg við erum með í höndunum? Hér er lagt upp með það að þingið, Alþingi, álykti um að ríkisstjórnin fái umboð til þess að ganga til aðildarviðræðna. Hvernig má það þá vera að það standi í þessu sama skjali að málsaðilar, sem í fyrri drögum hétu reyndar stjórnvöld, áskilji sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum? Hvaða málsaðila er verið að tala um? (Gripið fram í.) Þetta er algjörlega óskiljanlegt.

Ég segi það alla vega fyrir mitt leyti að ég tel að það sé bara einn málsaðili í þessu máli og það er Alþingi. Það er bara Alþingi sem veitir hér umboð. Það er Alþingi sem ályktar. Það eru engir aðrir málsaðilar sem eiga aðkomu að málinu. Menn geta talað um að Pétur eða Páll úti í bæ áskilji sér rétt til að berjast gegn niðurstöðunni en það hefur ekkert með það að gera að hér ályktar Alþingi um hvort ríkisstjórnin eigi að fá umboð til að ganga til samningaviðræðna. Þetta er bara eitt af mörgum atriðum í þessari þingsályktunartillögu sem er til vitnis um hversu illa hefur verið staðið að henni og hversu illa málið er undirbúið.

Það er þess vegna sem þingflokkar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa í dag lagt fram þingsályktunartillögu til þess að leiðbeina ríkisstjórninni um það hvernig mögulega væri hægt að búa málið þannig að hægt væri yfir höfuð að taka um það ákvörðun á Alþingi hvort að ríkisstjórnin fái umboð af þeim toga sem farið er fram á.

En það er eitt sem ég hef áhyggjur af í því sambandi, málið hefur á sér það yfirbragð að þar séu loforð frá þingflokki og ráðherrum Vinstri grænna um að þingsályktunartillagan verði afgreidd eigi síðar en í júnímánuði, í síðasta lagi í byrjun júlí. Ef það er ekki grundvallarkrafa af hálfu ríkisstjórnarinnar að þingið klári málið á þessu sumarþingi óska ég eftir að það komi fram frá þeim sem að málinu standa. Ef menn meina eitthvað með því að til standi að eiga við það samráð, að skilgreina eigi þá hagsmuni sem þeir hyggjast verja og telja mikilvægasta í samskiptum við Evrópusambandið — og ég ætla ekki að fara að hafa langt mál um það vegna þess að þá væri ræðutími minn fljótur að brenna upp. Ef menn meina eitthvað með því að draga eigi upp ferlið í heild sinni — og ég tel reyndar, eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni sem lögð var fram í morgun, að það sé skýlaus krafa og skýrt frá upphafi til enda hvernig menn ætli að standa að málum. Að mínu áliti þarf þingið að taka til umfjöllunar spurninguna um hvort fela eigi þjóðinni að taka ákvörðun um hvort leggja eigi af stað í þessa vegferð. En það eru fjölmörg önnur atriði sem ekki hafa fengist rædd á þinginu og er í engu vikið að í þessu plaggi.

Hér er einungis farið fram á að þingið veiti utanríkisráðherra umboð til þess að hlaupa af stað með málið. Síðan verði bara ákveðið það sem skiptir máli í því samhengi eins og t.d. hvernig staðið verður að þjóðaratkvæðagreiðslu, hvaða þátttökukrafa verður gerð þar, hvernig fer með samninganefndina, hvernig fer með eftirlit og upplýsingagjöf til þingsins og þann kostnað sem menn leggja út í hér og síðast en ekki síst hvaða hagsmunir það eru sem menn hyggjast verja?

Ég fer líka fram á, þegar utanríkisráðherra leggur fram þingsályktunartillögu um að það kunni að takast svo slæmir samningar við Evrópusambandið að hann hyggist berjast gegn niðurstöðunni, að hann geri miklu betur grein fyrir því en hann gerði í framsöguræðu sinni hvað er hættulegt í samningnum. Á hvaða sviðum samstarfs við Evrópusambandið liggja hætturnar? Er það á sviði sjávarútvegsmála? Er það vegna landbúnaðarins sem ráðherrann vék stuttlega að í máli sínu? Eða er það á einhverjum öðrum sviðum sem við verðum að gangast undir með dýpra samstarfi við Evrópusambandið, í öryggis- og varnarmálum eða einhverjum öðrum sviðum sem mér eru ókunn?

Það sem ég sakna fyrst og fremst, þrátt fyrir allt sem ég hef sagt í þessu máli, er að það sé eitthvað, þó ekki væri nema ein setning, um að skynsamlegt sé að leggja af stað í þessa vegferð. Hvar er sannfæringin í þessu máli? Hvar er greinargerðin um að nú stöndum við Íslendingar á þeim tímamótum að það sé skynsamlegt fyrir okkur að auka samstarfið við Evrópusambandið? Að EES-samningurinn standi svo höllum fæti að ekki verði búið við hann til langrar framtíðar?

Hvar er öll sannfæringin sem birtist alltaf þegar maður hitti sósíaldemókratana á norrænum vettvangi eða annars staðar á Evrópuþinginu um að Ísland eigi samleið með Evrópusambandsþjóðunum? Nei. Umræðan á Íslandi er ekki rædd á þeim forsendum eða keyrð áfram. Umræðan á Íslandi snýst bara um að við skulum að ganga í Evrópusambandið vegna þess þá fáum við evruna. Það er vegna þess að umræðan er á þessum nótum sem við eigum ekki að láta okkur koma það á óvart að í dagblöðum í Evrópusambandinu er vikið að því að Íslendingar séu nú bara að sækjast eftir aðild vegna þess að það henti þeim hagsmunalega í augnablikinu.

Ég vænti þess að þingmenn Samfylkingarinnar stigi hér í pontu í dag og lýsi því yfir hvernig Ísland eigi augljósa samleið með Evrópusambandinu og málið eigi að fá jákvæða umfjöllun, að við Íslendingar eigum að staðfesta samning við Evrópusambandið vegna þess að Ísland eigi heima inni í Evrópusambandinu. Að við eigum að starfa hlið við hlið, hönd í hönd með þeim ríkjum sem þar hafa komið sér saman og skipa málum fyrir þjóðríkin.

Hvar eru þessar ræður? Ég vænti þess að þær verði fluttar í dag en að ræður Samfylkingarinnar snúist ekki bara um evruna vegna þess að baki þessu máli hlýtur að búa einhver Evrópusambandshugsjón sem ekki einu sinni hæstv. utanríkisráðherra treystir sér til að opinbera í ræðustól áðan.

Nei. Málið, eins og það er kynnt fyrir okkur, snýst um þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Tillaga um aðildarumsókn að Evrópusambandinu er lögð fram til þess að íslenska þjóðin fái tækifæri til að hafna eða samþykkja samning um aðild að sambandinu þegar hann liggur fyrir.“

Það er hugsjónin. Hún ristir ekki dýpra en þetta. Málið snýst eingöngu um að leggja það fyrir þjóðina. Það snýst ekkert um það að við eigum augljósa samleið með Evrópusambandinu. Það snýst ekkert um að EES-samningurinn sé kominn á vonarvöl og eigi sér enga framtíð.

Virðulegi forseti. Það er ekki einu sinni minnst á það í greinargerðinni né er rökstuðningur fyrir því að við eigum að samþykkja að ganga til viðræðna við Evrópusambandið að við eigum í vandræðum með íslensku krónuna. Að það sé betra fyrir okkur að ganga í myntbandalag Evrópusambandsins en að halda áfram með sjálfstæða peningamálastefnu. Það er ekki neinn rökstuðningur í þá átt.

Það er þess vegna sem ég sagði áðan að málið beri þess öll merki að hafa verið dregið út úr ráðherrum Vinstri grænna með glóandi töngum inn á þingið vegna þess að það er enginn sannfæringarkraftur sem fylgir málinu sjálfu. Það kom ekki einu sinni í framsöguræðu hæstv. utanríkisráðherra sem mestu skiptir, að ég tel, í hugum þeirra sem skipa sér í flokk með sósíaldemókrötum.

En þeir eru auðvitað flestir þeirrar skoðunar að Evrópusambandið eigi að þróast í eitt risastórt sambandsríki í Evrópu sem fái til sín sífellt meiri og dýpri völd eins og þróunin hefur verið. Og ég vænti ræðna og rökstuðnings frá þingmönnum og ráðherrum Samfylkingarinnar — ég vænti þess að sjálfsögðu ekki frá þingmönnum eða ráðherrum Vinstri grænna — (Forseti hringir.) fyrir því að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Og þá held ég að þeir skilmálar og fyrirvarar sem menn tala um á tyllidögum skipti í raun og veru afskaplega litlu máli.