137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni hefur orðið tíðrætt um þær brennandi tangir sem ég hef í farteski mínu og get notað til að svíða út skoðanir á fólki. Ég þyrfti nú heldur betur á þeim að halda núna til að reyna að svíða út úr formanni Sjálfstæðisflokksins snefil af skoðun á málinu. Í hans löngu ræðu kom ekki fram nein afstaða Sjálfstæðisflokksins. Þá kom ekki fram nein sannfæring hv. þingmanns. En hv. þingmaður hafði sannfæringu þegar hann skrifaði greinina „Endurreisn á nýjum grunni“ í Fréttablaðið. Þá sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi kalla á að þjóðin öll taki í kjölfar aðildarviðræðna ákvörðun um þetta mikilvæga mál.“ Hann sagði líka, með leyfi forseta, að það gengi „gegn kjarna sjálfstæðisstefnunnar að flokkurinn leggi stein í götu slíkrar leiðar“.

Hvers konar umskipti hafa orðið hér á, frú forseti? Hv. þingmaður ætti síðan að kynna sér betur hvernig samningar ganga fyrir sig. Það er ekki þannig að menn komi heim með tiltekinn samning. (Forseti hringir.) Menn semja um 35 kafla og þeir ljúka hverjum kafla. Ég mundi hvorki koma heim með kafla né samning sem ég væri búinn að skrifa undir nema standa við það. Þannig erum við í Samfylkingunni. Við stöndum við það sem við segjum. [Hlátur í þingsal.] Og það mættu fleiri flokkar taka okkur sér til eftirbreytni.