137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki við öðru að búast en að hæstv. utanríkisráðherra mundi vitna í eitthvað annað en ég sagði í ræðustólnum. Þannig er með þetta mál að það er beinlínis gengið út frá því að sá sem lýkur samningi komi heim og áskilji sér rétt til að berjast gegn niðurstöðunni. Ef hæstv. utanríkisráðherra afsalar sér þeim rétti eru mér það tíðindi. Auðvitað er augljóst að það er ekki samstaða um þetta mál í ríkisstjórninni. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra gæti t.d. spurt hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eða eftir atvikum hæstv. umhverfisráðherra sem aðspurð var ekki tilbúin til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál. Það er augljóst þegar málið er í þeim farvegi í ríkisstjórninni að það er lagt fram í ágreiningi.