137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekkert óeðlilegt við það að ég vísi í ummæli hv. þm. Bjarna Benediktssonar utan þings. Hv. þingmaður hefur skrifað stefnumarkandi greinar. Þegar hann var í keppninni við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson um leiðtogasæti í Sjálfstæðisflokknum byrjaði hann þá keppni á þeim grundvelli að hann væri Evrópusinni. Flokkurinn tók aðra afstöðu og hv. þingmaður virðist ekki hafa kjark eða sannfæringu til að fylgja sinni upphaflegu skoðun. Hann hefur sagt það manna skýrast að sú stefna sem hér er lögð fram, eða aðferðin sé hin rétta og hann hefur sagt að það væri gegn kjarna sjálfstæðisstefnunnar að fara ekki þessa leið. Svo kemur hann hingað og hefur einhverja allt aðra skoðun.

Frú forseti. Við verðum í þessu efni að taka þrönga flokkshagsmuni og víkja þeim frá þegar hagsmunir eru svona stórir. Þetta eru hagsmunir allrar þjóðarinnar. Ég segi það alveg skýrt að ég vil eiga gott samstarf við alla flokka um þetta mál en til að það sé hægt þurfa menn auðvitað að hafa einhverjar skoðanir. (Forseti hringir.) Það sem meira er, þeir þurfa að hafa kjark til að standa við þær skoðanir sem þeir einhvern tíma hafa haft á málinu. (Gripið fram í.)