137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:04]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef lesið með athygli tillögu þingflokks Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem nú er runninn saman í einn og ég er að reyna að skilja hvernig það hafi gerst. Hér kom hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og sagði að Framsókn vildi aðildarviðræður. Hér kom hv. þm. Bjarni Benediktsson og sagði að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan en innan Evrópusambandsins. En hvað um það, tillagan liggur fyrir og menn hafa sameinast um undirbúninginn. Því spyr ég hv. þm. Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, hvort 15 ára aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, fjórfrelsið og innleiðing um 4.000 gerða í íslenska löggjöf sé á engan hátt undirbúningur eða gefi okkur hugmynd um það sem fram undan er í samningaviðræðum við Evrópusambandið.