137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:06]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér erum við þingmaðurinn algerlega ósammála. Ekkert land í Evrópu á í raun styttri leið inn í Evrópusambandið en Ísland vegna aðildarinnar að EES. Ef ég man þetta rétt eru það 22 kaflar af þeim 35 sem um ræðir — það getur verið að skeiki einum eða tveimur — það er grundvallaratriði og það vita allir. Allir þingmenn sem koma undirbúnir til umræðunnar um það hvort leggja eigi inn umsóknina og fara í aðildarviðræður vita hvað út af stendur og um hvað þurfi að semja. Ég hygg að þingmenn séu líka í mun meira mæli sammála um þá hagsmuni sem þarf að verja en menn láta uppi við upphaf þessarar umræðu, væntanlega af flokkspólitískum hagsmunum, en þeir hagsmunir sem þarf að verja liggja (Forseti hringir.) algerlega fyrir.