137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hef sagt að það voru einkum tvær ástæður til þess að Sjálfstæðisflokkurinn gerði rétt í því að fara að nýju yfir hagsmunamat sitt. Það eru breyttar pólitískar aðstæður, til að mynda eftir brotthvarf varnarliðsins, og það er sannarlega gjaldmiðillinn. Sannarlega hefur hann verið okkur til vandræða og ég hef margoft sagt að til lengri tíma kunni hann að reynast okkur fjötur um fót. Það er á þessum forsendum sem umræðan hefur átt sér stað innan Sjálfstæðisflokksins, á forsendum hagsmunamatsins.

Það kann að vera að hv. þingmaður sé sömu skoðunar, að við eigum að keyra þetta mál áfram á ísköldu hagsmunamati. Sannarlega er úr vöndu að ráða. Það eru engir augljósir, einfaldir kostir sem okkur standa til boða. Ég hef engu að síður verið þeirrar skoðunar að ókostirnir við inngöngu í Evrópusambandið væru slíkir að mín sannfæring stæði til þess að okkur væri enn betur borgið utan. Varðandi það sem hv. þingmaður vísar stöðugt í að ég hafi sagt og skrifað stend ég við það allt saman.