137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:14]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skoðanabræðurnir, ég og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins, hljótum að fagna því að hér sé komið fram mál í fyrsta sinn í þingsölum Alþingis þar sem lagt er til að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Það er sögulegur dagur en það er líka sögulegur dagur að lagt er til að svo stórt mál gangi með þessum hætti til þings og þá til þjóðar. Það er ákaflega lýðræðisleg og vönduð málsmeðferð og því hljótum við formaður Sjálfstæðisflokksins líka að fagna. Þess vegna kom mér á óvart sú vandlæting sem kom fram í máli formannsins um innihaldið í texta tillögunnar þegar kjarninn er alveg skýr og í öðru lagi er málið að ganga til þingnefndar, utanríkismálanefndar, til meðferðar, úrvinnslu og væntanlega þá betrumbóta ef nefndin telur á því þurfa að halda, dýpri og ítarlegri greinargerðar o.s.frv. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort hann fagni því ekki örugglega að þetta mál sé komið fram sem við töluðum báðir fyrir oft í ræðu og riti á Alþingi og utan Alþingis í fyrravetur (Forseti hringir.) og hefur ekkert breyst síðan þá. Það er kjarni málsins að málið er komið fram.