137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:16]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það væri tilefni til vandlætingar og það væri tilefni til að gagnrýna málsmeðferð ef ríkisstjórn Íslands hefði ákveðið að senda fullbúna umsókn til Evrópusambandsins án þess að hún kæmi til ítarlegrar meðferðar hjá Alþingi Íslendinga.

Hér kemur fram vönduð tillaga þar sem tíundaðir eru allir grundvallarhagsmunir Íslendinga í slíkum viðræðum en málið síðan sent til meðferðar á Alþingi Íslendinga. Utanríkismálanefnd getur með hvaða hætti sem er breytt málinu, dýpkað textann, útfært tillöguna mjög ítarlega þannig að þegar ríkisstjórn sækir síðan um aðild gerir hún það á sjálfsögðu á grunni þeirrar tillögu sem Alþingi Íslendinga og utanríkismálanefnd hefur ákveðið að gera skuli.

Þetta er eins jákvæð og vönduð málsmeðferð og hugsast getur í svo gríðarlega stóru máli. Eftir hvernig málsmeðferð er þingmaðurinn að kalla? (Forseti hringir.) Um leið fagna ég því að sjálfsögðu að hann tekur undir það að sækja skuli um aðild með nýrri tillögu gömlu stjórnarflokkanna.