137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um aðildarviðræður að Evrópusambandinu og ég hef stutt það, ég studdi að sú tillaga yrði lögð fram. (Gripið fram í.) Síðan höfum við lagt áherslu á, eins og hér kom fram í máli þingmannsins, að það væri þingið sem ætti að fjalla um málið. Í því felst að mínu mati styrking á þingræðinu.

Mér finnst eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé dálítið að kalla eftir gömlum tíma, nefnilega þeim að þingið sé stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið. (Gripið fram í: Var ekki verið að spyrja þig?) Ég ætla að sjálfsögðu að svara þessari spurningu ef ég fæ ráðrúm til þess fyrir hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Það sem ég er að segja er að mér finnst hér vera kallað eftir því að þingið eigi að vera stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið. Það er ekki þannig sem við viljum vinna þetta mál. Ég hef sagt að ég vil efna til mikils og góðs samráðs við stjórnarandstöðuflokkana og ég hef reyndar þegar lagt drög að því að gera það þótt sumir hafi ekki séð sér fært (Forseti hringir.) að koma að því borði. En ég mun leggja mig fram um að eiga samráð við stjórnarandstöðuna (Forseti hringir.) og um þá tillögu sem hún hefur lagt fram vegna þess að væntanlega (Forseti hringir.) verður mælt fyrir henni og henni vísað til utanríkismálanefndar til umfjöllunar.