137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það út af fyrir sig ekki mikil speki að við þurfum að vita það áður en við fljúgum út til Brussel um hvað við ætlum að semja. Það var það sem hv. þingmaður sagði í raun og veru. Hann sagði að við þyrftum eitthvað að vita í okkar haus um hvað við ætluðum að semja áður en við stigjum upp í flugvélina á leið til Brussel.

Það sem ég spurði hv. þingmann um var einfaldlega þetta: Telur hv. þingmaður ekki, með skírskotun til þess að hann hefur auðvitað miklar efasemdir um aðild okkar að Evrópusambandinu, að það væri skynsamlegra fyrir okkur að gera okkur betur grein fyrir þessu máli áður en við tökum ákvörðun um það á hv. Alþingi hvort við ætlum að leggja upp í þessa vegferð? Mér finnst eins og hv. þingmaður sé svolítið að reyna að skauta fram hjá því og það er auðvitað af eðlilegum ástæðum. Hv. þingmaður er fulltrúi stjórnmálaflokks sem er á móti aðild að Evrópusambandinu. Það hefur greinilega komið fram og það vitum við. En ég ítreka þessa spurningu til hv. þingmanns: Telur hann ekki skynsamlegra að þessir hlutir séu betur skýrðir áður en Alþingi tekur um þetta ákvörðun, að það sé gert með vandaðri greinargerð sem allir sjá að verður ekki unnin (Forseti hringir.) á hálfum mánuði eins og gert er ráð fyrir í tillögu hæstv. utanríkisráðherra?