137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessar spurningar. Fyrst vil ég segja um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu að það er atriði sem margir hafa viðrað, að það gæti verið skynsamlegt að efna til sérstakrar atkvæðagreiðslu fyrst. Í þingræðu fyrir sennilega hálfu öðru ári síðan viðraði ég það hvort það gæti verið skynsamleg leið. Við höfum rætt það á vettvangi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en það hefur ekki verið niðurstaða okkar að leggja til að sú leið verði farin.

Varðandi málamiðlun. Já, ég sagði að um væri að ræða málamiðlun á milli sjónarmiða stjórnarflokkanna. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu er tillagan það. Það kemur ekkert neinum á óvart og ég tel að það sem fjallað er um í þingsályktunartillögunni m.a. um grundvallarhagsmuni okkar megi rekja til málflutnings okkar.

Í þriðja lagi varðandi umsókn fyrir júnífrest. Þessi tillaga er komin fram til þingsins og það er í höndum þingsins sjálfs og þeirrar nefndar sem fær málið til meðferðar að ákveða hversu langan tíma hún þarf til umfjöllunar. (Forseti hringir.) Framkvæmdarvaldið setur þinginu engin fyrirmæli eða skorður í því efni.