137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svo það sé rétt skilið hjá mér, er þá enginn samningur í gildi milli Samfylkingar og Vinstri grænna um að ljúka þessu máli þannig að umsóknin komi til Evrópusambandsins fyrir júnílok? Ég vil biðja þingmanninn að svara því annaðhvort með jái eða neii.

Varðandi tvöföldu atkvæðagreiðsluna veit ég hver skoðun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er en ég mundi gjarnan vilja fá að vita skoðun þingmannsins og spyr því í kjölfarið: Væri það ekki einmitt málamiðlun á milli stjórnarflokkanna að setja málið í þann lýðræðislega farveg að þjóðin fái að skera úr um hvort hún vill yfir höfuð fara í viðræður eða ekki? Ég skil ekki alveg hvaða sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa náðst fram í þessari málamiðlun vegna þess að daginn fyrir kosningar sagði formaður flokksins í sjónvarpi að hann væri andvígur umsókn, það ætti alls ekki að sækja um í sumar, ef ég man rétt. (Forseti hringir.) Ég vona að ég fari ekki vitlaust með (Forseti hringir.) en ítreka spurninguna um málamiðlunina.