137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hér hefur mikið verið rætt um mikilvægi þess að ná sátt og samstöðu í þessu máli. Þessi ríkisstjórn hefur reyndar frá því að hún var mynduð mikið talað um að við þyrftum að beita okkur í þinginu fyrir breyttum vinnubrögðum og leggja gríðarlega áherslu á sátt og samvinnu í öllum málum. En þó hefur í þessu máli sérstaklega verið lögð gríðarlega mikil áhersla á að ná sem víðtækastri sátt og að vinna hlutina saman. Eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi áðan lagði forseti Íslands mikla áherslu á það á þingsetningardaginn.

Það er þess vegna dálítið sérkennilegt að hér er lagt upp með sátt sem á að vera þess eðlis að fyrst sé ákvörðun tekin og svo séu hlutirnir ræddir. Reyndar var málflutningur hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar þess eðlis að ég var sammála nánast öllu sem hann sagði, enda var hann að langmestu leyti í samræmi við þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar í þessu Evrópumáli. Svo má geta þess líka sem hæstv. utanríkisráðherra sagði um tillögu stjórnarandstöðunnar, hann fjallaði heilmikið um hana og talaði mjög vel um hana svo ég velti því fyrir mér hvort ekki væri ráð til að ná sátt og samstöðu um þessa tillögu, sem hæstv. utanríkisráðherra tekur svona ljómandi vel í, að við ræddum hana og hættum að spá í stjórnartillöguna. Ráðherrann heldur því fram að þetta sé nokkurn veginn það sama en sé það skoðun hans, getur hann þá ekki bara fallist á það í nafni sáttar og samstöðu að við ræðum tillögu stjórnarandstöðunnar og sjáum hvort við getum ekki náð saman um hana? Til þess er þessi tillaga lögð fram, að reyna að ná sátt, rétta fram útrétta sáttarhönd í þessu máli því að þetta er gríðarlega mikilvægt mál og áríðandi að menn reyni að komast að einhverri sameiginlegri niðurstöðu, a.m.k. að ræða meginefni málsins áður en ákvörðunin er tekin. Það er grundvallarmunurinn á þessum tveimur tillögum. Þó að hæstv. utanríkisráðherra hafi haldið því fram að á þessum tveimur tillögum sé enginn reginmunur, er á þeim býsna stór munur: Önnur tillagan gerir ráð fyrir að ákvörðun sé tekin fyrst og svo ræði menn forsendur ákvörðunarinnar en hin tillagan gerir ráð fyrir öfugri röð sem ég hallast að því að sé betri röð, þ.e. að ræða tillöguna fyrst og taka svo ákvörðun.

Reyndar er annar stór munur á þessum tillögum og hann varðar niðurstöðuna þó að hún liggi ekki endanlega fyrir. Ljóst er að sú niðurstaða sem stefnt er að með þingsályktunartillögu stjórnarinnar eða Samfylkingarinnar er sú að Samfylkingunni, hæstv. utanríkisráðherra og hans mönnum verði einum falið umboð til að fara í viðræður við Evrópusambandið. Hvernig kemur það heim og saman þegar menn tala um mikilvægi þess að vinna hlutina með þinginu, að við gerum þetta öll saman, þingræðið ráði og hinar ólíku skoðanir á þingi, að menn ætlast til þess að einn flokkur með mjög afdráttarlausar skoðanir á málinu fái umboð til að fylgja því eftir? Það er ekki með nokkru móti hægt fyrir þingið að sætta sig við að aðeins einn flokkur, Samfylkingin, fari með umboð þessa máls. Enda held ég að það væri ekki sérstaklega æskilegt fyrir þjóðina að einungis Samfylkingin færi í viðræður við Evrópusambandið vegna þess að sá flokkur hefur talað þannig um Evrópusambandið á undanförnum vikum, mánuðum og árum að samningsstaðan er ekki sérstaklega sterk. Samfylkingin er ekki í stöðu til annars en samþykkja hvað svo sem Evrópusambandið mundi rétta henni. Ef Evrópusambandið segði við Samfylkinguna: Takið þessu eða þið fáið ekki neitt, hvernig ætlar Samfylkingin að bregðast við því? Ætlar hún að koma heim og segja: „Við náðum ekki samningi. Lausnir allra vandamála þjóðarinnar brugðust. Við höfum ekki neitt“? Ætlar Samfylkingin að koma heim samningslaus og segja að allur málflutningur hennar undanfarna mánuði, jafnvel undanfarin ár, hafi verið til einskis vegna þess að ekki hafi verið hægt að ná samningum við Evrópusambandið? Nei, Samfylkingin mundi aldrei segja það. Samfylkingin er ekki í stöðu til annars en að taka því sem að henni væri rétt í Brussel. Þar af leiðandi held ég að það væri æskilegt fyrir okkur öll, fyrir Samfylkinguna líka, að breiðari hópur stæði að baki hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Hvað svo með hvernig þetta birtist út á við? Nú er flokkur hæstv. utanríkisráðherra vel að sér í almannatengslamálum, pólitískum spuna og slíku. (Gripið fram í.) Er mér ekki óhætt að segja að þetta séu ykkar ær og kýr? (Utanrrh.: Það eru fleiri.) Við skulum, hæstv. ráðherra, taka þá umræðu síðar. Ég kvíði því ekki að ræða það við þig. Ég held að menn greini ekkert á um að Samfylkingin er mjög áhugasöm um pólitíska „spunataktík“ og beiti henni óspart. Þar af leiðandi tel ég Samfylkinguna vel til þess færa að velta fyrir sér hvernig það muni birtast nú þegar gríðarlega mikið hefur verið fjallað um Ísland í fjölmiðlum um alla Evrópu og raunar um allan heim mánuðum saman en alltaf um eitt atriði, um að Ísland sé í rauninni á hausnum, hér sé skelfingarástand. Svo kemur frétt um að Íslendingar hafi skilað inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Þeir hafi reyndar ekki verið búnir að finna út úr því hvernig þeir ætluðu að leysa úr atvinnuleysisvandanum hjá sér, þeir séu á hausnum og þar fram eftir götunum en þeir ætli að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það sé gert vegna þess að flokkurinn sem fer með aðildarviðræðurnar sé búinn að útskýra það fyrir þjóðinni að það sé okkar eina von. Evrópusambandið sé svona nokkurs konar björgunarfélag sem þurfi að bjarga okkur úr því ástandi sem við erum í. Hvernig telur Samfylkingin, sem hefur mikla þekkingu á almannatengslamálum, að þetta muni birtast?

Reyndar erum við þegar farin að sjá hvernig þetta mun birtast ef við gerum þetta með þessum hætti. Til að mynda er raunar hæðst að Íslendingum í þýsku útgáfunni af The Financial Times fyrir að vilja nú sækja um aðild að Evrópusambandinu vegna þess að þeir séu komnir í þrot að öllu öðru leyti. Það er ekki mikil reisn yfir því að nálgast Evrópusambandið með þessum hætti. Hvar er sjálfsvirðingin? Hvar er sæmdin? Hvar er sú hugsun að við þurfum að fara í viðræður við Evrópusambandið eða ætlum að gera það sem sjálfstæð þjóð sem er búin að hugsa málið til enda, búin að hugsa með sér hvernig hún ætli að taka til heima hjá sér fyrst og hvað hún hafi fram að færa gagnvart Evrópusambandinu, hvað hún er tilbúin að semja um? Hvaða reisn er yfir því að utanríkisráðherra kroti á miða SOS og sendi hann í hraðpósti til Brussel? Það skiptir máli hvernig við nálgumst Evrópusambandið og það skiptir máli hvort sem við erum fylgjendur aðildar eða ekki. Ef við gerum það eins og lagt er upp með í tillögu Samfylkingarinnar þýðir síðan ekkert að ætla einhvern tíma seinna eftir nokkur ár að fara aftur í aðildarviðræður við Evrópusambandið eftir að þessu hefur verið klúðrað. Í rauninni er ákveðin hætta á því ef þessari leið yrði fylgt að taka ákvörðun um það núna, að ræða síðan málin á meðan Samfylkingin ræðir við félaga sína úti í Brussel, að það mundi ekki enda með aðild að Evrópusambandinu heldur áframhaldandi niðurlægingarferli fyrir Ísland. Þar af leiðandi skulum við sammælast um það sem ríkisstjórnin hefur talað svo mikið fyrir, að fara þessa hefðbundnu leið að ná sátt og samstöðu, ræða málin fyrst áður en við tökum ákvörðun. Það gagnast okkur öllum. Það gagnast hæstv. utanríkisráðherra og það gagnast Samfylkingunni líka. Og þó að hæstv. utanríkisráðherra hafi lagt sig fram um að túlka stefnu annarra flokka er ég hræddur um að það sé alveg tilefni til þess — við getum gert það á kaffistofunni á eftir svo tímanum sé ekki öllum varið í það — að ég fari yfir stefnu Framsóknarflokksins með stefnu hæstv. utanríkisráðherra. Reyndar mundi ég vilja gera orð hv. þm. Vinstri grænna, Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, óbeint að mínum í þessu máli og biðja hæstv. ráðherra fyrir alla muni að tala fyrir sinn flokk í Evrópumálunum en ekki fyrir aðra.

Af því að menn eru svo mikið farnir að vitna í það sem skrifað hefur verið og sagt í gegnum tíðina tel ég alveg tilefni til þess líka að vitna í einn af þingmönnum Samfylkingarinnar, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem á þeim tíma var hæstv. viðskiptaráðherra. Hann sagði þann 17. júlí í fyrra, með leyfi forseta:

„Stór skref verða ekki stigin í Evrópumálunum nema um þau skapist breið samstaða á vettvangi stjórnmálanna og í samfélaginu öllu.“

Ég tek undir hvert orð hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni og út á það gengur þingsályktunartillaga stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Þetta er framrétt sáttarhönd til að ná breiðri sátt og samstöðu um málið sem við hljótum öll að geta verið sammála um að sé eðlilegt fyrsta skref í svona gríðarlega stóru hagsmunamáli.