137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir því að formaður Framsóknarflokksins vill gjarnan ná breiðri og góðri samstöðu í þessu máli og ég ítreka það sem ég sagði áðan að það er fullur vilji til þess og vonandi er hægt að vinna málið með þeim hætti.

Ég velti hins vegar fyrir mér hvort formanni Framsóknarflokksins hafi verið alvara þegar hann fjallar um að það komi ekki til álita að einn flokkur, þ.e. Samfylkingin, fari með samningsumboð Íslands. Hefur nokkrum dottið það í hug nokkurn tíma að samningsumboð Íslands yrði falið einum stjórnmálaflokki? Það mun aldrei verða svoleiðis. (Gripið fram í.) Samningsumboðið getur að sjálfsögðu verið á hendi ríkisstjórnar í umboði Alþingis. Ég velti fyrir mér hvað hv. formaður Framsóknarflokksins á við þegar hann talar um það með þessum hætti.

Að sjálfsögðu getur samningsumboð Íslands, ef til kemur, aldrei verið í höndum einhverrar flokksskrifstofu úti í bæ, (Forseti hringir.) það hlýtur að vera ríkisstjórnin með fulltingi Alþingis sem fer með það. (Gripið fram í.)