137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:27]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Bhr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það veldur mér vissulega nokkrum trega að væntingar hv. þm. Péturs Blöndal til Borgarahreyfingarinnar skuli sveiflast svo ört sem raun ber vitni, að fyrst vöknuðu bjartar vonir en nú sér hann aðeins svartnætti fram undan vegna þess að við teljum ekki nauðsynlegt að leggja í þjóðaratkvæði hvort sækja skuli um aðild að Evrópusambandinu eða ekki.

Ég vek athygli hv. þm. Péturs Blöndals á að aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur verið til umræðu, ég skal ekki tilgreina árafjöld sem þessi umræða hefur staðið með þjóðinni — 10, 15, 20 ár. (Gripið fram í.) Hvað segirðu, Pétur minn?

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að ávarpa ekki einstaka þingmenn með þessum hætti.)

Ég biðst afsökunar, forseti.

Nú er komin ný fyrirspurn frá hv. þm. Pétri Blöndal um hvort þjóðin hafi sjálfstæði eða ekki. Jú. Ég held að þjóðin hafi bæði sjálfstæði, sem ég fagna ákaflega, og Sjálfstæðisflokk svo henni er nokkuð vel borgið.