137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:50]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að stjórnarfrumvarp og stjórnartillaga sem er lögð fram af ráðherra og samþykkt í ríkisstjórn er auðvitað tillaga ríkisstjórnarinnar allrar. Síðan hafa þingmenn stjórnarflokkanna auðvitað frelsi, og um það er líka samkomulag, til þess að taka ákvarðanir við afgreiðslu þess máls eins og samviska þeirra býður (Gripið fram í.) og við ætlum ekki að leggja bönd á þá.

Hins vegar er spurt: Af hverju er EES-samningurinn í uppnámi og girðir sú staða fyrir aðild að Evrópusambandinu? Svo er alls ekki. Hann er hins vegar í uppnámi vegna þess að það eru engar horfur á því að við getum efnt þau ákvæði hans sem fela í sér frjálsa og óhefta fjármagnsflutninga. Það er vegna hinnar veikburða krónu, það er staðreynd sem við getum ekkert vikist undan. Eina forsendan fyrir því sem ég get séð að við getum yfir höfuð látið krónuna virka á næstu árum (Gripið fram í.) í frjálsu og opnu kerfi er í kjölfar aðildarumsóknar. Þá gætum við fengið tiltekinn stuðning Evrópska seðlabankans til þess að greiða þá leið með okkur þannig að við gætum fikrað okkur út úr þeim gjaldeyrishöftum sem að óbreyttu munu marka starfsskilyrði íslensks atvinnulífs (Forseti hringir.) því mjög til óheilla á næstu árum.