137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:52]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við þekkjum þetta að sjálfsögðu. Auðvitað þekkja Evrópusambandsríkin líka mörg þau mistök sem stjórnvöld víða um lönd gerðu í aðdraganda hinnar alþjóðlegu bankakreppu.

Staðreyndin er hins vegar sú að við glímum ekki bara við alþjóðlega bankakreppu heldur líka við gjaldeyriskreppu vegna þess að gjaldmiðill okkar gerir okkur ómögulegt að grípa til nauðsynlegra aðgerða til þess að reisa efnahagslífið úr rústum. Það er sú bitra staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Það er gjaldmiðillinn sem stendur í vegi nauðsynlegra vaxtalækkana, það er gjaldmiðillinn sem stendur í vegi þess að við komum viðskiptum við útlönd í eðlilegt horf. Það er þessi grundvallarstoð sem vantar undir efnahagslega endurreisn. Þetta verða þingmenn auðvitað að horfast í augu við.

Varðandi frestunina er ljóst að í tillögu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks felst frestun vegna þess að það er ekki einu sinni kveðið á um í henni að sækja skuli um aðild að Evrópusambandinu heldur að leggja enn og aftur í nefndarvinnu. Það er búið að tefja þetta mál í nefndum árum saman að frumkvæði þessara sömu flokka og ég var satt að segja að vona að Framsóknarflokkurinn væri kominn í aðra átt í ljósi (Forseti hringir.) flokksþingsályktunarinnar síðast. Það er engin ástæða til þess að búa til enn eina tafanefndina sem (Forseti hringir.) gerir ekkert annað en að endurtaka þær staðreyndir sem við þekkjum fullvel (Forseti hringir.) úr fyrri nefndarvinnu.