137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:55]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tillögunni er að finna farveg um ákvarðanatöku, farveg til þess að þingið geti tekið grundvallarákvarðanir í þessu máli. Það er mikilvægasti þáttur málsins. Um stefnu ríkisstjórnarinnar ræddi hæstv. forsætisráðherra í stefnuræðu sinni og rakti þar fjöldamörg rök fyrir aðild að Evrópusambandinu.

Eins og ég nefndi áðan hafa einstakir þingmenn stjórnarflokkanna frelsi og það er mjög mikilvægt að við höldum í heiðri þann rétt þingmanna. Ég verð bara að segja alveg eins og er að mig langar ekki að draga þetta mál enn eina ferðina niður í hjólför flokkadrátta milli flokkanna. Ég tel mikilvægara að við vinnum það á vettvangi þingsins, ég tel enga ástæðu til annars. Í meðferð utanríkismálanefndar verði síðan málið þroskað og í nefndaráliti hennar komi eftir atvikum fram þau sjónarmið sem hún telur eðlilegt að komi fram gagnvart viðsemjandanum. Síðan verði áfram unnið á vettvangi utanríkismálanefndar (Forseti hringir.) að samningsstefnunni og hún endurspeglist í málflutningi utanríkisráðherra þegar á hólminn er komið.