137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:58]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að játa mig það mikinn aðdáanda þingræðis að ég sé enga ástæðu til þess að kokka „formúleringar“ að þessu leyti ofan í Alþingi (Gripið fram í.) þegar ljóst er að við ætlum að fela því valdið í þessu efni.

Ég verð að segja alveg eins og er að nú hef ég tjáð ýmis sjónarmið fyrir því af hverju ganga eigi í Evrópusambandið. Ég þykist muna að hv. þingmaður hafi sjálf vakið athygli á því að það kynni að vera ástæða til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Fyrir því hefur hún ábyggilega haft sín rök. Sama gerðu hv. þm. Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson. Sama hefur hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gert.

Ég ætla ekki að taka frelsi þessa ágæta fólks af því að ákveða fyrir sig (Gripið fram í.) hvaða sjónarmið skipta mestu. Ég vil leggja þetta mál í hendur þingsins. Ég vil leyfa hv. þingmönnum Framsóknarflokksins sem hafa líka sín sjónarmið fyrir því af hverju ganga eigi í Evrópusambandið, að ákveða sig. Ég vil leyfa þinginu (Gripið fram í.) að ákveða þetta og þingið á einfaldlega að gera það. (Gripið fram í.) Það er bara ekki ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í.) að kokka það ofan í þá þó að sjálfstæðismenn kunni enga leið aðra en þá að ríkisstjórnin segi þinginu fyrir verkum. (Gripið fram í.)