137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:00]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðildarumsókn er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að ganga frá kjarasamningum með góðum hætti að mínu viti. Ég held að aðildarumsókn sé einfaldlega mikilvæg forsenda efnahagslegs stöðugleika. Auðvitað er það þannig að einhvern veginn bögglumst við í gegnum hlutina ef við höfum ekki aðildarumsókn. En ég held að það sé algjörlega ljóst að við þær aðstæður sem við búum við núna til dæmis til að eyða óvissu um framtíð EES-samningsins og til þess að skýra hvaða leið við erum að fara þá skipti aðildarumsókn miklu máli. (Gripið fram í.) Við erum ekki að uppfylla EES-samninginn nú. Við þær aðstæður sem við búum við núna skiptir aðildarumsóknin mjög miklu máli.

Ég tel að við vitum nákvæmlega nógu mikið til þess að gera tekið þá mikilvægu ákvörðun að við ætlum að sækja um aðild núna, leggja hana inn. Það er síðan verkefni þingsins að vinna það áfram í samvinnu við stjórnvöld hvernig á málinu verði haldið gagnvart viðsemjandanum. Mér finnst það (Forseti hringir.) eðlilegur þáttur í þingræði og að það sé mikilvægt að við felum Alþingi með skýrum hætti lykilhlutverk í því efni.