137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:02]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt telur hann að bara umsóknin sem slík muni skapa efnahagslegan stöðugleika á Íslandi og það séu ekki lok aðildarviðræðnanna eða staðfesting samningsins sem muni skapa þennan efnahagslega stöðugleika eða upptaka evrunnar sem verður kannski eftir mjög mörg ár heldur sé það umsóknin sem slík. Mér finnst það merkileg afstaða og ég er ekki alveg viss um að ég sé sammála henni eða geti tekið undir það þó að ég sé fylgjandi því að við sendum inn umsókn. Ég geld varhuga við því að það að senda inn umsókn sé skilið þannig að það hafi svo mikla efnahagslega þýðingu.

Um ferli málsins vil ég spyrja ráðherrann aftur einmitt í ljósi þess að það er búið að tala svo mikið um málið og það er svo mikið fyrirliggjandi. Tekur það þá ekki bara stuttan tíma fyrir utanríkisnefnd að setja niður (Forseti hringir.) skilyrðin eða samningsmarkmiðin sem við förum með til Brussel og eins líka að setja niður hvert verði ferli málsins, hvert verði ferli aðildarsamningsins og þess háttar?