137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum mál sem hefur verið lengi til umræðu úti í samfélaginu, þ.e. hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Eins og í mörgum erfiðum og mikilvægum málum eru skiptar skoðanir um það í samfélaginu og það er bara fínt. Það er ágætt. Ég verð þó að segja um þá tillögu sem hér er til umræðu og er frá ríkisstjórninni, er samþykkt af ríkisstjórninni þrátt fyrir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra muni segja nei við tillögunni, hugsanlega hæstv. umhverfisráðherra líka og við vitum síðan ekki hvað aðrir vinstri grænir munu segja — að það er mjög sérkennilegt en engu að síður staðreynd að þetta er stjórnartillaga.

Venjulega skilgreiningin á stjórnartillögu er að öll ríkisstjórnin verði að standa við og styðja slíka stjórnartillögu. Ef það er ekki gert þá fellur stjórnin. Fram til þessa hefur þetta verið skýringin. En alla vega þá erum við að ræða aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem mér sýnist fyrst og fremst vera um að ríkisstjórnin haldi í rauninni velli. Hún snýst um það. Hún snýst í rauninni ekki um mikið meira. Þó að þessi fyrsta og eina setning sem er í tillögunni um að ríkisstjórnin eigi að fá heimild til að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu þá er uppleggið í þessari tillögu mjög sérstakt. Það verður að segjast eins og er að við — og þar með ég meðtalin — að við, þau sem erum stuðningsmenn þess, hlynntir því að við förum í aðildarviðræður við Evrópusambandið — ég er talsmaður þess — að þá verðum við að segja að svona handabakavinna eins og er verið að bjóða upp á núna er ekki boðleg, er ekki þinginu boðleg.

Hér talaði hæstv. félagsmálaráðherra Árni Páll Árnason áðan og sagði að margar nefndir hefðu verið í gangi, margar nefndir í gegnum árin. Já, það er rétt. Margar þverpólitískar nefndir hafa verið starfræktar í gegnum árin og komist að ákveðnum niðurstöðum. Þess vegna er mjög undarlegt að þessi tillaga sem við erum að ræða hér í dag skuli ekki vera betur úr garði gerð en raun ber vitni. Það er mjög sérstakt. Eins og fram hefur komið er ekki einu sinni stjórnmálaleg forusta um það af hverju við erum að fara þessa leið eins og bent hefur verið á, af hverju rétt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu heldur er þetta plagg fyrst og síðast hentistefnuplagg til að halda ríkisstjórninni saman. Það eru mikil vonbrigði að sjá þessi vinnubrögð, þessa aðferðafræði þegar um svona mikilvægt mál er að ræða. Það veldur miklum vonbrigðum að ég og fleiri sem ég veit um í þinginu hvort heldur í stjórn eða stjórnarandstöðu skulum ekki geta fylkt okkur bak við almennilega útbúna tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Hvað hefur verið rætt um hér á undanförnum árum og hvað var sérstaklega rætt um núna á þessum vetri? Það var að efla og auka vægi þingsins. Hvað gerist í þessari tillögu? Þingið er bara upp á punt. Þingið er einfaldlega upp á punt. Svo er verið að tala um að það eigi að setja þetta til þingsins. Þingið á bara að samþykkja tillöguna og ekki hafa í rauninni neina skoðun á því hverjir séu hagsmunir Íslands í þessum viðræðum eða: Af hverju teiknar þingið ekki upp hvernig allt ferlið eigi að vera frá A til Ö og sinni þeirri kröfu sem uppi er í samfélaginu að hér ríki gegnsæi, að það sé upplýsingaflæði frá þinginu? Hverju þarf að breyta í stjórnarskránni ef og þegar slíkur samningur liggur fyrir? Hversu langan tíma ætlar þingið að veita þjóðinni til að afla sér upplýsinga um niðurstöðu samninga? Hvernig ætlar þingið að styrkja hugsanlegar nei- og já-hreyfingar? Hvernig verða þær fjármagnaðar? Allt ferlið er þokukennt. Allt ferlið er þokukennt vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir eyddu tíma, dýrmætum tíma í að koma sér saman um plagg sem er ekki burðugt til að fara með til Brussel. Það verður hlegið að því, að okkur Íslendingum þegar búið er að þýða þessa tillögu í Brussel sem hér liggur fyrir. Þess vegna vil ég sérstaklega mótmæla því sem hefur verið sagt um tillögu okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Sú tillaga er tillaga um vandaða málsmeðferð. Hún er ekki tillaga til að tefja málið, síður en svo. Ég legg ríka áherslu á að þetta mál verði ekki tafið. Við leggjum líka ríka áherslu á að vandað verði til verka. Þess vegna fullyrði ég hér að sá tími sem ríkisstjórnarflokkarnir notuðu í að karpa sín á milli um hvað ætti að standa í tillögunni var vannýttur tími til vandaðrar málsmeðferðar gagnvart Evrópusambandinu og hugsanlegri aðild. Það var vannýttur tími.

Það hefur verið vitnað í ræðu forseta Íslands. Ég ætla að gera það líka. Tvennt bar að mínu mati hæst í þeirri ræðu. Það var annars vegar það að hann sagði í sinni þingsetningarræðu fyrir nokkrum vikum að stjórnarskráin okkar hefði staðið, að hún væri sígild og hún hefði staðist í rauninni þá tíma sem við hefðum verið að upplifa. Að sjálfsögðu má breyta stjórnarskránni. Við höfum margoft ítrekað það. En stjórnarskráin okkar hefur staðið tímanna rás. Það sagði forsetinn okkar og ég er sammála honum í því. Það er annað atriði.

Hitt atriðið er mikilvægt atriði sem forsetinn okkar kom inn á í sinni ræðu líka. Það var að hugsanlegar aðildarviðræður að Evrópusambandinu mættu ekki kljúfa þjóðina. Þá ber þingið ríka ábyrgð í þá veru hvernig við nálgumst þá málsmeðferð alla. Þá má ekki kasta til höndunum því ábyrgð okkar þingmanna er mikil í þessu stóra máli. Því tek ég undir með forsetanum að ég hefði viljað sjá vandaðri málsmeðferð í þessu og það er í þessum tveimur málum sem ríkisstjórnin hefur sýnt sitt rétta andlit að mínu mati, í þessum tveimur málum, þ.e. breytingum á stjórnarskránni og við það að sækja um aðild að ESB. Í þessum risamálum hefur ríkisstjórnin vaðið áfram, ekki kært sig um að hafa samráð við öll lýðræðislegu öflin á þingi heldur vaðið áfram hvort sem það er í breytingum á stjórnarskránni og núna varðandi ESB. Og síðan upp á punt þegar búið er að ákveða í rauninni dagsetningar, hvenær eigi að sækja um, ákveða að þingið eigi ekkert að gera annað en samþykkja tillöguna og síðan eiga aðilar úti í bæ eingöngu að ráða því hvernig verði samið — þingið á ekki að koma að ákvörðun um það hvernig eigi að skipa viðræðunefndina — þá á stjórnarandstaðan „vesgú“ að koma inn í málið, þegar búið er að ákveða málið. Þetta er mikilvægasta mál landsins að mati Samfylkingarinnar, og núna Vinstri grænna vegna sem hafa játað sigraða. Því var kostulegt að upplifa ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar, áðan þar sem það var alveg ljóst að hann kemur múlbundinn til þessarar atkvæðagreiðslu því að hann getur ekki, miðað við orð hans áðan, greitt atkvæði með tillögu okkar framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Eða getur hann það?

Málið er nefnilega að sú tillaga sem við sjálfstæðismenn og framsóknarmenn leggjum upp með — og ég vil taka undir með hv. þm. og formanni Framsóknarflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að það væri réttara að ræða tillögu okkar af því að hvort kemur á undan, eggið eða hænan? Ef við ætlum að fara í þessar aðildarviðræður verðum við „vesgú“ að vinna okkar heimavinnu. Það liggur svo margt fyrir. Það er ekkert verið að tala um að tefja málið. Það eru margar skýrslur og margar nefndir og síðan eigum við að taka á pólitískum forsendum ákvörðun um það hvernig við ætlum að haga málsmeðferðinni, upplýsa þjóðina um það hvenær hún fái aðgang að málinu, hvernig við ætlum að miðla upplýsingum, í hvaða farveg við ætlum að setja málið allt í heild sinni og hvað málsmeðferðin kosti. Það var ekki lítið talað um það af hv. þingmönnum Vinstri grænna sem nú eru í ríkisstjórninni með hæstv. fjármálaráðherra í broddi fylkingar hvað allt ferlið varðandi umsóknina í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kostaði. Það var nú ekki lítið talað um það ferli og að það yrði að ríkja gegnsæi um kostnaðinn. Mér finnst ekkert tiltökumál að ríkisstjórnin upplýsi það fyrst hún er búin að fara svona gaumgæfilega í gegnum málið hvað allt ferlið muni kosta þjóðina. Það er ekkert að því og það er í samræmi við þá kostnaðarvitund sem við eigum að viðhafa alls staðar þegar kemur að hagsmunum ríkisins og ríkisfjármálanna.

Ég legg mikla áherslu á að við höldum áfram með málið og reynum að ná sáttum í þinginu. Ég tel það skipta miklu máli því að mín skoðun er sú að við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er alveg klárt af minni hálfu. En ég get ekki fallist á þá tillögu sem hér liggur fyrir af því að vinnubrögðin eru til vansa. Mér finnst við vera að gelda þingið með þeirri tillögu. Síðan koma menn hér með reglulegu millibili og segja að það þurfi að auka veg og vanda þingsins þegar við fáum vart að koma að málinu nema bara með því að segja nei eða já við þessari tillögu. Af hverju fær ekki þingið að skipa sína fulltrúa eða koma að því að skipa sína fulltrúa varðandi þessa faglegu viðræðunefnd við ESB sem verður skipuð af ríkisstjórn Íslands? Af hverju er hún ekki bara skipuð og samþykkt af þinginu?

Þetta mikilvæga pólitíska leiðarljós sem maður hefði haldið að kæmi frá Samfylkingunni, sem að mínu mati er líka með allt niður um sig í þessari tillögu, kemur ekki fram. Við ítrekum að hvergi er sagt af hverju fara eigi þessa leið og það er rétt að draga fram að enginn ráðherra Vinstri grænna hefur rætt málið í þinginu. En mér skilst að hæstv. fjármálaráðherra muni koma upp í ræðustól strax á eftir mér og þá fáum við væntanlega að heyra hver afstaða ráðherranna er hjá Vinstri grænum. Þeir hljóta að geta talað fyrir sig eins og þingflokksformaður Vinstri grænna bað um í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra og þá fáum við það skýrt og klárt vonandi hvort hæstv. fjármálaráðherra ætli að greiða atkvæði með þessari tillögu eins og hún liggur fyrir eða ekki. Ætlar hann að beita sömu aðferð og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og segja nei við tillögunni? Ætlar forustumaður Vinstri grænna að gera það? Við fáum örugglega skýr svör við því því þetta er allt saman óljóst alveg eins og það er allt annað óljóst í svo mörgu öðru, í stóru málunum öðrum sem ríkisstjórnin verður að fara að klára. Ríkisfjármálin eru algerlega óljós. Einu skilaboðin sem við fáum hingað — við tökum náttúrlega aðra umræðu í það — eru að það eru skattahækkanir, aukin gjöld. Engar tillögur eru um hvernig við ætlum að koma atvinnulífinu af stað á nýjan leik. Það er allt óljóst, það er allt órætt þegar kemur að þeim málum og það sama má segja um þá tillögu sem við erum að ræða hér. Það er merkilegt að Samfylkingin, eftir allt þetta, eftir þetta stærsta kosningamál þeirra, skuli ekki koma betur undirbúin til leiks og segja okkur af hverju við eigum að fara í þessa vegferð.

Ég undirstrika að ég vil sækja um aðild að Evrópusambandinu en ekki á þessum forsendum, nei takk. Ég vil að við vinnum þetta betur innan þingsins, gerum þetta í meiri sátt en verið hefur og að við í stjórnarandstöðunni séum ekki bara kölluð til þegar ríkisstjórnin sér fram á að koma ekki sínum málum í gegn öðruvísi en með stjórnarandstöðunni. Í mikilvægum málum eru þjóðarhagsmunir svo brýnir að allir þurfa að koma að borðinu frá upphafi. Ríkisstjórnin hefði betur nýtt þann tíma sem hún notaði í að möndla saman þessari hörmulegu þingsályktunartillögu í að tala við forustumenn annarra lýðræðisafla á þingi.

Ég tel að tillaga okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna feli það í sér að við getum komið bæði stolt og vel upplýst með málið allt á hreinu, málsmeðferðina gegnsæja frá A til Ö og sagt við fólkið okkar hvort sem það er á Austurvelli eða annars staðar á landinu hvernig við sjáum framvinduna í málinu, hvar við sjáum aðkomu frjálsra félagasamtaka eða lýðræðislegra hreyfinga, hvernig þau eigi að koma með sín sjónarmið inn í allt ferlið, hvað það kosti og svo framvegis.

Ég tel mikilvægt að þetta verði rætt ítarlega í utanríkismálanefnd sem ég sit í og ég treysti því að Alþingi beri gæfu til að við, þ.e. ef við förum í viðræður að þá förum við í þær viðræður þannig að það ríki sátt, við förum inn í þær viðræður með traust umboð á grundvelli upplýsinga og gegnsæis í öllu ferlinu. Við skulum bara viðurkenna að plaggið frá ríkisstjórninni er handónýtt. Hendum því. Vinnum sameiginlega að þessu markmiði sem að mínu mati er mikilvægt að við náum, þ.e. að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. En gerum það þá almennilega.