137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég var að tala um þá tillögu sem felur í sér að Alþingi komist að niðurstöðu í því efni, hvort sækja eigi um að aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Það mál er sett í hendur Alþingis með flutningi þessarar tillögu. Um það er samkomulag milli stjórnarflokkanna en það er jafnframt ljóst að þeir hafa ólíka afstöðu í þessu máli. Hér inni á þingi munu þingmenn greiða atkvæði, væntanlega allir sem einn, í samræmi við og bundnir af engu öðru en samvisku sinni og sannfæringu. Ég vona að það gildi líka um Sjálfstæðisflokkinn.

Um hvaða áhrif framvinda þessarar tillögu hefur á ríkisstjórnina þá ætla ég ekki að svara fyrir aðra en okkur vinstri græn. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að við hlítum niðurstöðu Alþingis í sambandi við þetta þingmál rétt eins og önnur. Það er mikill misskilningur að ríkisstjórnarþátttaka og stuðningur sé skilyrt og bundin því að hvert einasta mál sem flutt er sem stjórnartillaga eða stjórnarmál nái fram að ganga. Stuðningur þingmanna í grunninn við ríkisstjórn felur aðeins eitt í sér (Forseti hringir.) og það er það að þeir hafa skuldbundið sig til að verja hana vantrausti.