137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er Bleik brugðið ef hæstv. fjármálaráðherra hefur allt í einu ekki skoðun á eigin tillögu. Ég reyndi að rýna í orð hans í lokin og ég skildi þau svo að hann ætli að segja já við þeirri tillögu sem við ræðum hér, þ.e. tillögu ríkisstjórnarinnar.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því, af því að hann talaði fjálglega um að hann sæi fyrir sér nei- og já-hreyfingar og mundi vilja styðja þær, og ég fagna því sérstaklega að hann taki undir það sem við vorum að fara yfir áðan. En ég spyr hann í kjölfarið af ræðu sinni og velti því fyrir mér: Mun hæstv. fjármálaráðherra taka af fullum krafti þátt í starfi slíkra nei-hreyfinga á grundvelli stefnu vinstri grænna sem liggur alveg ljós fyrir? Ég held að hann geti ekkert hlaupist undan eða frá stefnu vinstri grænna. Mun fjármálaráðherra taka af fullum krafti þátt í nei-hreyfingunni þegar þar að kemur?