137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég náði ekki að svara annarri spurningu í fyrri ræðu minni varðandi tímann. Málið gengur nú til utanríkismálanefndar og það er langeðlilegast að utanríkismálanefnd meti það hversu mikinn tíma þarf til að ræða og rannsaka málið með fullnægjandi hætti, hversu langan tíma vilja menn gefa til umsagna og annað í þeim dúr. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að þessi málsmeðferð sé vönduð en það þýðir ekki endilega að hún þurfi að taka einhvern óralangan tíma.

Ég tek undir það sem kom fram í ræðu fyrr í umræðunni að auðvitað liggja svo mikil gögn og svo ítarlegar rannsóknir og svo margar skýrslur fyrir í málinu að það þarf auðvitað ekki að fara að vinna það allt saman frá grunni aftur. Það liggur gífurlegur massi af efni fyrir um þessa hluti. Þetta hefur verið þaulrætt í samfélaginu á undanförnum missirum og það liggur fyrir.

Varðandi baráttu mína úti í samfélaginu í samræmi við mína sannfæringu, þá er svarið já. Ég hef engum rétti afsalað mér til málflutnings eða baráttu í þágu sannfæringar minnar í þessu máli. Eins og reyndar er tekið sérstaklega fram í stjórnarsáttmálanum. (Forseti hringir.) Þar er sérstaklega tekið fram að stjórnarflokkarnir virða og viðurkenna ólíka stefnu hvors um sig og rétt hvors flokks um sig til málflutnings (Forseti hringir.) og baráttu í samræmi við það.