137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður vill ræða mikið um Vinstri hreyfinguna – grænt framboð og afstöðu hennar í þessu máli er honum það fullkomlega frjálst. En einu get ég lofað honum, ég mun ekki reyna að ræða um vegferð Framsóknarflokksins í þessum efnum. (Gripið fram í: Nú?) Og það hvernig hann hefur farið frá því að hér stóð maður með sama nafni og ég í ræðustóli og sagði sem svo og gerði að sérstöku kosningamáli fyrir ekki mjög löngu síðan, að það mætti aldrei verða að Íslendingar gengju í Evrópusambandið. Hvernig var kosningaslagorðið? (Gripið fram í.) XB en ekki ESB. (Gripið fram í: Það var nítjánhundruðáttatíu og eitthvað.) En hvað um það. (Gripið fram í.) Þá er nú gott að fræða hv. þingmann … (Gripið fram í.)

(Forseti (ÞBack): Gefið hljóð.)

… ef hann hefur ekki verið fæddur þegar þetta var. Ég hef þegar tekið það skýrt fram í umræðunni að það er enginn misskilningur í gangi um það að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er andvíg aðild að Evrópusambandinu og það hefur ekkert breyst í þeim efnum. Við höfum gert málamiðlun um tiltekna málsmeðferð og útskýrt hana og það er það sem þetta mál snýst um.