137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hvet hv. þingmann til að vera viðstaddur þegar málið kemur úr nefnd og hefur farið í gegnum síðari umr. Þá verða væntanlega greidd hér atkvæði og þá fær hv. þingmaður svarið. Bæði stjórnskipulega og póltískt séð er ekkert sérstakt sem mælir með því að þingmenn gefi endilega upp afstöðu sína til mála sem hér koma fram nema þeir sjálfir kjósi. (Gripið fram í.) Það liggur þannig.

Ég geri ráð fyrir því jafnvel að eitthvað af þingmönnum hér inni séu ekki enn þá búnir að gera það endanlega upp við sig hvernig þeir greiða atkvæði. Það er fullkomlega eðlilegt, (Gripið fram í.) getur m.a. ráðist af því hvers konar umfjöllun málið fær í nefnd, hvort það taki breytingum og þar fram eftir götunum. Ég hélt að ég hefði svarað þessu sæmilega skýrt hér áðan. (Gripið fram í: Nei.) Þetta er stjórnartillaga, ég hef samþykkt í ríkisstjórn og í þingflokki að hún komi fram. Ég er náttúrlega aðalmálsvari fyrir hönd míns flokks að því samkomulagi stjórnarflokkanna sem birtist hér í þessari málamiðlun um málsmeðferð (Gripið fram í.) og ætli ég sé þá ekki líklegur til þess að standa að málinu til enda?

Varðandi hins vegar Framsóknarflokkinn, hvað kusu kjósendur Framsóknar í Evrópumálum? (Forseti hringir.) Eigum við að fara aðeins yfir það? Var það að sækja ætti um en með skilyrðum sem eru óaðgengileg? (Gripið fram í.) Ef menn vilja fara út í þessa hluti getum við auðvitað rætt það. (Gripið fram í.) Ég held að það þjóni litlum tilgangi.