137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það þurfi að fara aðeins betur yfir stjórnskipunarréttinn með hv. þingmanni sem hér hefur talað (Gripið fram í.) vegna þess að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir heldur því fram að ekki sé hægt að ákveða valdaafsal eða fullveldisframsal nema um sé að ræða að ríkisstjórnin taki þá ákvörðun eða að það sé ríkisstjórnartillaga. Það er alls ekki rétt. Stjórnarskráin kveður á um að Alþingi sjálft geti einungis ákveðið slíkt, það er Alþingi sjálft sem tekur slíkar ákvarðanir. Eðli málsins samkvæmt getur í sjálfu sér hvaða þingmaður sem er flutt tillögu um slíkt en ákvörðun um fullveldisframsal verður aðeins tekin af Alþingi. Þar skiptir engu máli hvort flutningsmaður eða flutningsaðili slíkrar tillögu er ríkisstjórn eða einstakir þingmenn, að sjálfsögðu ekki, það stendur ekkert um það í stjórnarskránni. Mér þætti því fróðlegt að fá frekari útskýringar á því frá hv. þingmanni.

Þar fyrir utan liggur málið þannig að sú tillaga sem hér er á dagskrá er stjórnartillaga. (Gripið fram í: Nei.) Hún er stjórnartillaga, hún er flutt af ráðherra í ríkisstjórninni (Gripið fram í.) með samþykkt þingmanna. Framlagning hennar er samþykkt í ríkisstjórn, framlagning hennar er samþykkt af þingflokkum stjórnarflokkanna þannig að þetta er að sjálfsögðu stjórnartillaga. En eins og hæstv. fjármálaráðherra gat um áðan í máli sínu felst í stuðningi þingmanna við ríkisstjórn fyrst og fremst sú yfirlýsing að verja ríkisstjórn falli. (Gripið fram í: Nei.) Það er engin skuldbinding af hálfu þingmanna sem eru í stjórnarflokkum að þeir muni alltaf og ávallt styðja hvert einasta þingmál óbreytt sem frá ríkisstjórninni kemur. (Gripið fram í.) Eða er það þannig sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, gömlu flokkarnir á Alþingi, vilja hafa það, að löggjafarsamkoman sé bara stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið eins og það hefur verið öll þau ár sem þeir hafa farið með völd? (Gripið fram í.)

Þannig ætlum við ekki að vinna. Þingmenn eru bundnir af sannfæringu sinni og munu taka afstöðu til málsins á þeim grunni þegar upp er staðið.