137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér er sönn ánægja að lýsa yfir stuðningi við þingsályktunartillögu þá sem hér er til umræðu um að lögð verði inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Þingmenn eru vissulega ekki allir á eitt sáttir um hvort það sé til hagsbóta fyrir okkur að stíga þetta skref. Það er ekki nema eðlilegt. Fólk greinir á um veigaminni atriði.

Við munum vonandi bera gæfu til að færa fram okkar rök í hvaða átt sem þau vísa án gífuryrða eða dylgna um að einhverju okkar gangi eitthvað annað til en það sem við höldum eða teljum að sé best fyrir íslenska þjóð.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fjalla um félagsskapinn sem sótt er um aðild að vegna þess að stundum finnst mér eins og verið sé að vísa okkur í einhverja ormagryfju þar sem helsta markmiðið sé að kippa undirstöðuatvinnuvegum undan þjóðum sem eru í þessu samstarfi.

Nú eru 27 þjóðir í Evrópusambandinu. Fyrst voru þær sex. Upphafið verður rakið til áranna eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar þegar að stórhuga menn í Evrópu veltu upp hugmyndum um hvernig mætti koma í veg fyrir stríð í álfunni sem logað hafði í stríði og óeirðum um aldir. Efnahagsbandalagið var stofnað 1957 þegar sex þjóðir gerðu með sér Rómarsáttmálann. Hugmyndin var að hægt væri að tryggja frið í álfunni með því að þjóðirnar tengdust sterkum viðskipta- og efnahagsböndum.

Þrjár þjóðir bættust í hópinn 1973. En í ljós hafði komið að samstarf í EFTA sem stofnað var 1960 skilaði þeim þjóðum sem þar voru ekki jafnmiklum ávinningi og samstarfið skilaði þjóðum í Efnahagsbandalaginu.

Árið 1981 bættist Grikkland í hópinn. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafði reyndar skilað neikvæðri umsögn um ósk Grikkja um aðildarviðræður en ráðherraráðið ákvað engu að síður að hefja þær. Var það gert til að treysta lýðræði í Grikklandi af því þetta var rétt eftir að herforingjastjórninni þar hafði verið hnekkt. Við megum nefnilega ekki gleyma því að frelsi og lýðræði eru á meðal þeirra grunngilda sem allar þjóðir sem ganga í Evrópusambandið verða að virða. Hin eru mannréttindi og réttindi minnihlutahópa til orðs og æðis.

Við Íslendingar höfum verið í náinni samvinnu við Evrópusambandið síðan 1994 þegar EES-samningurinn tók gildi. Hvatinn að þeirri samningsgerð var áætlun Evrópusambandsins um innri markaðinn. Ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti áætlunina árið 1986 en hún fól í sér að innleiða nálægt 280 tilskipanir og reglugerðir á sex árum. Öll ákvæðin miðuðu að því að afnema innri landamæri á milli ríkjanna sem þá voru orðin tólf. Það er hin skringilega mótsögn, hefur mér alltaf fundist, að allt þetta regluverk þyrfti til að koma á frelsi, fjórfrelsinu sem kallað er. Þetta var 29 árum eftir að Rómarsáttmálinn var undirritaður en tilgangur hans var einmitt sá að gera löndin að einu markaðssvæði.

Áætlunin um innri markaðinn hafði svo jákvæð áhrif á efnahagslíf landanna í Evrópubandalaginu að innan EFTA vaknaði áhugi á að taka þátt í þessari áætlun og hófust samningaviðræður þeirra og Evrópubandalagsins um aðild EFTA-þjóðanna að innri markaðnum.

Hrun Berlínarmúrsins breytti pólitískum raunveruleika í álfunni í nóvember 1989. Hlutlausu löndin í EFTA töldu sig nú geta verið í Evrópubandalaginu. Á næstu árum á eftir sóttu öll EFTA-ríkin nema Sviss og Ísland um aðild að Evrópusambandinu. Öll þekkjum við hvernig norska þjóðin felldi samning um aðild að Evrópusambandinu öðru sinni og Svisslendingar vildu ekki einu sinni vera í EES. Nú eru Liechtenstein, Noregur og við á EFTA-hlið EES-samningsins og löndin á hinni hliðinni eru 27. Það er nú jafnvægið í þeim samningi.

EES-samningurinn hefur gagnast vel. En honum fylgir að við tökum yfir allar þær tilskipanir og reglugerðir sem koma innri markaðnum við án þess að vera í fundarherberginu þegar ákvarðanir eru teknar. Það er stóri gallinn við þann annars mjög merkilega samning og ég meina það virkilega.

Samvinnan innan Evrópusambandsins hefur ekki verið ein samfelld skemmtisigling. Christopher Tugendhat sem átti sæti í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins 1977–1985 líkir samstarfinu í bók sinni Making Sense of Europe við þrautir Sísyfosar en hlutskipti hans var að velta stórum steini upp fjall, en steinninn rann alltaf niður aftur og hann varð að byrja upp á nýtt. Ég hef skilið þessa samlíkingu á þann veg að sameining Evrópu sé eilífðarverkefni sem stöðugt verði að vinna að og ljúki líklegast aldrei. Annar Evrópumaður lýsti samstarfinu við mann á tvíhjóli. Hann verður alltaf að vera á ferð vegna þess ef hann stoppar þá veltur hann um koll.

Hvorug þessi samlíking kallar á að sífellt séu tekin stór stökk fram á við, öllu heldur að alltaf sé eitthvað í gangi. Víst er að stundum hefur samstarfið fremur lullað en verið á hraðri ferð enda ekkert óeðlilegt við það þegar margar þjóðir koma saman og ráða ráðum sínum. Auðvitað eru ekki allar þjóðir sammála um hve náin samvinnan eigi að vera eða hvernig hún eigi að þróast. Sumar þjóðir vilja styrkja yfirþjóðlega valdið. Aðrar vilja draga úr því. Enda væri það skrýtinn heimur þar sem allir væru sammála öllum.

Virðulegi forseti. Nú eru þau tímamót að þingsályktunartillaga um að sækja um aðild að Evrópusambandinu hefur verið lögð fram á Alþingi. Verði hún samþykkt, sem ég sannarlega vona, munu aðildarviðræður hefjast innan skamms.

Íslendingar hafa mjög ákveðnar og um leið ólíkar skoðanir á því hvernig samning við munum fá. Ég er þeirrar skoðunar að við náum góðum samningi, að við náum samningi sem tryggir okkur forræði yfir náttúruauðlindunum. Aðrir eru ekki þessarar skoðunar. Eina leiðin til að skera úr um þetta er að ganga til samninga um aðild og sjá þann samning. Þá fyrst höfum við fast land undir fótum. Enginn ágreiningur er um að samningurinn verði borinn undir þjóðina til samþykkis eða synjunar. Ég endurtek. Það er enginn ágreiningur um það.

Það hefur verið gagnrýnt að þessu máli hafi verið vísað til þingsins með þeim hætti sem gert er. Getur verið að þeir sem gera það sakni þess að ekki sé beitt því meirihlutavaldi sem venja hefur verið til að beita í samskiptum þings og ríkisstjórnar? Ég fagna því að málið er sett í hendur þingsins. Ljóst er að skoðanir fólksins í landinu fara ekki eftir flokkslínum. Það sýnir mikinn kjark að rífa þessa áríðandi umræðu upp úr þeim djúpu hjólförum sem hún hefur spólað í.

Ég þyl ekki hér þá bót sem íslensk þjóð mun hafa af því að gerast aðili að Evrópusambandinu. Ég bíð með þá ræðu þangað til að samningsdrögin liggja fyrir. Það hefur verið sagt að við Evrópusinnar höldum að aðild að Evrópusambandinu leysi allan okkar vanda, þaðan sé komin töfralausn Samfylkingarinnar á efnahagsþrengingunum. Þetta er ekki rétt. Við teljum ekki að aðild að Evrópu muni leysa allan vandann. En hún er hluti af lausninni. Aðild að Evrópusambandinu breytir því ekki að við þurfum að skera niður ríkisútgjöld sem aldrei fyrr. Hún breytir því ekki að það þarf að hækka skatta og aðild að Evrópusambandinu kemur ekki í veg fyrir atvinnuleysið og bölið sem því fylgir. En umsókn um aðild að Evrópusambandinu mun sýna hvert við stefnum. Aðildarumsókn sýnir að við stefnum að því að vinna mál náið með vina- og nágrannaþjóðum og hún sýnir að við hyggjumst taka fast á efnahagsmálum vegna þess að við stefnum að því að komast í myntsamstarfið og taka upp evru þegar við höfum náð þeim efnahagsstöðugleika sem til þess þarf. Það verður ekki í dag og það verður ekki á morgun og kannski ekki fyrr en eftir langan tíma. En við getum líka verið viss um það að við munum aldrei komast í myntsamstarfið og aldrei taka upp evru nema að við göngum í Evrópusambandið. Allt hangir saman. Velferðin, atvinnan, fyrirtækin, bankarnir og gjaldmiðillinn. Til að umheimurinn treysti okkur og vilji vinna með okkur, hjálpa okkur til að finna leiðir til að borga niður skuldirnar og byggja upp á nýtt verðum við að sýna svo ekki verði um villst að við ætlum að takast af alvöru á við þetta verkefni.

Fyrsta skrefið var samningurinn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það var þungt skref en nauðsynlegt. Næsta skref er létt skref. Það skref er að sækja um aðild að Evrópusambandinu. En aðild að Evrópusambandinu opnar dyrnar að fundarherbergjum Evrópuþingsins og ráðherraráðs Evrópusambandsins og greiðir leiðina að myntbandalaginu og evrunni.

Hv. formaður utanríkismálanefndar hefur lýst því hér hvernig hann hyggist vinna að því að þetta mál fái þá bestu umfjöllun í utanríkismálanefnd sem möguleg er. Ég er varaformaður þeirrar nefndar og ég mun styðja hann í því í hvívetna eftir því sem ég mögulega get og ég vona að þegar þeirri vinnu er lokið verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt hér í þinginu.