137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:50]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér er til umræðu er fram komin að mínu mati sökum þess að þeir flokkar sem mynda ríkisstjórn um þessar mundir gátu ekki komið sér saman um málsmeðferð í þessu máli. Ég held að það sé nokkuð ljóst, ef litið er til ummæla forustumanna þessara flokka, einstakra þingmanna, ráðherra og annarra, að þessi leið var valin vegna þess að menn töldu að það væri sýnt að ekki væri hægt að koma sér saman um þetta með öðrum hætti. Gott og vel. Þar með er þetta mál komið inn í þingsal.

Ég vil þó segja að sú skoðun vekur mér nokkra furðu að þetta sé eitthvert sérstakt dæmi um aukna lýðræðisást eða sérstakan vilja til að vinna með þinginu að ríkisstjórnin hafi eins og stundum er orðað heimilað þinginu að taka afstöðu í þessu máli. Að sjálfsögðu, og ég held að allir hv. þingmenn skilji það mætavel, hefur þingið alla tíð haft þetta vald í sínum fórum. Það er ekki ríkisstjórnarinnar að ákveða það að þingið geri þetta, það er þingið sjálft. Þingmál eins og hér er til umræðu getur komið fram frá hvaða þingmanni sem er og reyndar kom fram í morgun þingmál sem allir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa skrifað upp á þar sem lagt er upp með ákveðna málsmeðferð í tengslum við þá umræðu sem er nú á dagskrá.

Þetta er nauðsynlegt að menn hafi aðeins í huga vegna þess að það skýrir líka um leið og menn lesa tillöguna, og sérstaklega greinargerðina sem henni fylgir en greinargerðin endurspeglar það auðvitað og reyndar málatilbúnaðurinn allur, vandamálið sem stjórnarflokkarnir hafa staðið frammi fyrir vegna þessa máls. Og það er þess vegna sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa komið fram með tillögu að annarri málsmeðferð sem að mínu mati er mun betri og ítarlegri og á alla kanta betur undirbyggð en sú málsmeðferð sem lagt er upp með af hálfu tillöguflytjenda í því máli sem hér er rætt, þ.e. um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Ég tel einfaldlega að þessi texti hafi ekki verið nægilega ítarlega hugsaður og það sé engan veginn hægt að komast að þeirri niðurstöðu þegar menn lesa greinargerðina að hún sé til nokkurrar fyllingar sem dugar til að Alþingi geti tekið ákvörðun um jafnveigamikið mál og þetta.

Mér þykir líka nokkuð hafa borið á þeim misskilningi í umræðunni að það sé í grunninn enginn munur á þessum tveimur tillögum, þ.e. tillögu utanríkisráðherra og hins vegar tillögu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Á þessum tveimur tillögum er algjör grundvallarmunur. Munurinn felst í því að úr því að það er Alþingi sem ætlar að taka þessa ákvörðun og það er að sjálfsögðu Alþingi sem gerir það, þá viljum við að það sé gert þannig að það sé búið að leggja vegvísi fram um allt málið, þ.e. hvernig það gangi fram áður en Alþingi tekur endanlega ákvörðun um hvort farið verði í aðildarumsókn. Á þessari leið og þeirri sem utanríkisráðherra hefur lagt upp með í ræðu sinni og í sínu þingskjali er grundvallarmunur.

Af hverju er þetta mikilvægt? Þetta er mikilvægt vegna þess að það er nauðsynlegt að búið sé að leggja fram þennan vegvísi til að koma í veg fyrir að það verði deilur í samfélaginu um það hvernig við eigum að haga málsmeðferðinni. Þær deilur munu verða ef við ákveðum ekki strax í upphafi hvernig halda eigi á þessum málum. Hér eru engin smámál undir, hér eru undir mál sem snúa að stjórnarskránni, að fullveldinu, að efnahagslegri framtíð landsins. Menn hafa mismunandi skoðanir á því hvaða áhrif þetta muni hafa á efnahag landsins og á fjöldamörg önnur atriði sem eru lykilmál í þjóðlífi okkar og munu valda breytingum, ef fram gengur, til ekki bara áratuga heldur enn lengri tíma. Þess vegna skiptir máli að málsmeðferðin sé vel úr garði gerð og menn ákveði áður en lengra er haldið hvernig hún eigi að vera. Það er eðlilegt að þingið gangi fyrst frá þeim málum áður en það tekur ákvörðun um hvort sótt verði um aðild eða ekki.

Það er rangt sem hér hefur komið fram, m.a. í þingsalnum og ég hef líka heyrt það í fréttum í dag, að sú staða sé uppi að allir flokkarnir nema Vinstri grænir, eins og sagt var í fréttum Bylgjunnar í hádeginu, séu búnir að ákveða að ganga til aðildarviðræðna við ESB. Þetta er rangt, tillaga okkar gerir þá kröfu til þingsins og til okkar sjálfra að það verði búið að festa þetta form þannig að við getum síðan unnið eftir því. Og það er ekki bara til að koma í veg fyrir deilur um það hvernig málsmeðferðin eigi að vera, það er líka mikilvægt vegna þess að núgildandi stjórnarskrá gerir ekki ráð fyrir að Ísland geti gengið í ESB, breyta þarf stjórnarskránni til þess að svo megi verða. Samt sem áður liggur hér fyrir tillaga um að hefja ferli sem að óbreyttri stjórnarskrá gengur ekki upp. (Gripið fram í.)

Þess vegna skiptir líka máli og er reyndar höfuðatriði að mínu mati að áður en lengra er haldið, áður en Alþingi tekur þá ákvörðun að sækja eigi um aðild að ESB sé búið að búa til þann vegvísi sem sýni nákvæmlega hvernig menn ætla að halda t.d. á þeim stjórnarskrárbreytingum sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að leiða allt ferlið að enda. Það er algjört lykilatriði.

Mér finnst einfaldlega ekki boðlegt fyrir Alþingi að það taki ákvörðun um það núna að hefja aðildarviðræður án þess að um leið sé búið að taka ákvarðanir um breytingar á stjórnarskrá. Og ekki bara breytingar á stjórnarskrá, það þarf líka að taka ákvarðanir um það hvernig við ætlum að haga þjóðaratkvæðagreiðslu í þessum málum. Það þarf sennilega að breyta stjórnarskránni til að þjóðaratkvæðagreiðsla hafi gildi, þ.e. bindandi gildi, til að þjóðaratkvæðagreiðsla verði ekki bara einhvers konar risaskoðanakönnun. Þetta er lykilatriði og það sýnir ekki mikla ábyrgð í þessu máli að ætla sér að fara af stað án þess t.d. að hafa bundið þá hnúta. Breytingar á stjórnarskránni þannig að hægt sé að afsala ákveðnum hluta af fullveldi þjóðarinnar, þannig að hægt sé að ganga til atkvæðagreiðslu með þjóðinni og ýmsir aðrir þættir sem skipta máli hér, t.d. eins og sá kostnaður sem við erum tilbúin að gangast undir og hversu mikið það muni kosta að fara í þetta samningaferli, eru hlutir sem skipta okkur máli. Það er sérstaklega tekið á því í tillögu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að einn af þeim þáttum sem við viljum að liggi fyrir áður en Alþingi tekur þessa ákvörðun er einmitt sá: Hver verður kostnaðurinn við aðildarumsóknina?

Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. fjármálaráðherra að hann hafði það einmitt á orði að það væri æskilegt að vita hve mikið þetta kostaði. Það væri eðlilegt að hann, sjálfur hæstv. fjármálaráðherra, hefði á því áhuga. Væri þá ekki bragur á því að vera búin að finna út úr því áður en lengra er haldið? Þannig að það sé eitt af því sem liggi fyrir áður en menn segja já við því að fara í aðildarumsóknina.

Þessi mál tel ég að vera, ein og sér, nægilega sterk rök fyrir því að þingið eigi fyrst að taka afstöðu til þeirrar þingsályktunartillögu sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa lagt fram. Ég tel að sú málsmeðferð sem þar er lagt upp með sé miklu vandaðri og miklu úthugsaðri en sú sem lagt er upp með í því þingskjali sem við ræðum núna. Síðan er hitt að það eru auðvitað ýmis álitamál sem snúa að Evrópuumræðunni sem skipta máli og við munum örugglega fá tækifæri til þess í þingsölum að ræða þau ítarlega.

Það er alveg rétt sem fram hefur komið að sjávarútvegsmálin verða einn af þeim málaflokkum sem mestu skipta þegar kemur að aðildarsamningum og aðildarviðræðum. Mér fannst þess vegna áhugavert svo ekki sé meira sagt þegar hæstv. forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni á dögunum að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki væru svo einstaklega sterk og vel í stakk búin til að keppa á alþjóðamörkuðum að menn þyrftu ekki að hafa miklar áhyggjur af því þó að við gengjum inn í þá sjávarútvegsstefnu sem ESB býður upp á. Á sama tíma er ríkisstjórnin búin að lýsa því yfir að hún ætli að afnema eða taka af sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi 5% af aflaheimildum þeirra á ári bótalaust, sem mun sennilega gera flest útgerðarfyrirtæki á Íslandi gjaldþrota á einum þremur, fjórum, fimm árum að lágmarki.

Það er bara eins og mönnum sé ekki sjálfrátt þegar þeir ræða um þessa hluti og leggja þetta upp með þeim hætti sem gert hefur verið í þingsölum á undanförnum dögum, vegna þess að það er eins og mönnum finnist að allt sé til þess vinnandi að vinna þetta mál á þeim undarlega hraða og með þeim undarlega undirbúningi sem hér er lagt upp með að menn gefi sér ekki tíma til að vinna málið og fara eftir þeirri tillögu sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa lagt upp með. Ég vísa því algjörlega frá að þar sé um að ræða einhvers konar frestun á málinu og menn vilji ekki takast á við það, að það sé verið að ýta málinu á undan sér. (ÁÞS: Gott!) Þar er verið að nálgast málin þannig að Alþingi geti tekið ákvörðun í þessu gríðarlega mikilvæga máli eftir að hafa farið ítarlega í gegnum þann undirbúning sem við lýsum í okkar þingskjali að við teljum algjörlega nauðsynlegan til að Alþingi geti tekið afstöðu.

Það eru mjög margir málaflokkar sem við þurfum að vera búin að móta mjög vel samningsmarkmið okkar í, eins og landbúnaðarmálin, sjávarútvegsmálin. Og einn málaflokkur sem ég teldi ágætt að væri búið að leiða til lykta áður en menn setjast niður með fulltrúum frá ESB eru Icesave-samningarnir. Við vitum hver viðbrögð ráðamanna ESB voru þegar við Íslendingar vorum að reyna að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þau voru langt í frá vinsamleg gagnvart okkur Íslendingum og þar voru greinilega sett mjög harkaleg skilyrði.

Sama gildir og mun gilda, tel ég, þegar við Íslendingar ætlum að fara að ræða við ESB um aðild að þeim samtökum. Skyldu ekki verða settar á okkur einhverjar skrúfur akkúrat í þessum málum? (ÞSveinb: Láttu á það reyna.) Við skulum vera með það alveg á hreinu, ef menn telja að við eigum allt undir því að klára þetta mál fyrir lok júnímánaðar til að koma því af stað inn í eitthvert ferli sem menn vilja sjá ganga eftir, að þá erum við að fara í samningsstöðu sem kann að vera auðvelt að veikja af hálfu ESB.

Hitt er líka að ég tel að í umræðunni um ESB og kosti þess að sækja um aðild og kosti þess að ganga inn í ESB, hafi nokkuð borið á því að menn hafi afvegaleitt umræðuna og afvegaleitt þjóðina í þeim málum. Vegna þess að það er augljóst fyrir þeim sem fylgjast með umræðum um efnahagsmál í Evrópu að það eru alveg gríðarleg vandamál sem blasa við mörgum Evrópuþjóðum, hvort heldur þeim sem hafa nú þegar fengið að taka upp evruna eða þeim sem ekki hafa fengið að taka upp evru og eru í þeirri stöðu sem við mundum verða í þegar við værum búin að samþykkja aðild, ef svo færi, og værum þá komin í hið svokallaða ERM2-myntsamstarf.

Það er að verða 20% atvinnuleysi á Spáni. Írar gátu bjargað sínu bankakerfi, ekki vegna þess að þeir voru með evru, heldur vegna þess að írska ríkið gekkst í ábyrgðir fyrir allar skuldir írsku bankanna. Eystrasaltslöndin hafa lent í gríðarlegum efnahagsþrengingum og Austur-Evrópa líka. Reyndar hjó ég eftir því í umræðunni fyrr í dag þar sem því var velt upp að líklega mundu vextir á Íslandi lækka töluvert mikið bara við það að sækja um aðild, að þá vil ég bara nefna það sem áhugaverðan punkt til að velta fyrir sér að við það að Slóvenía gekk í sambandið lækkaði lánshæfismat þess lands og vaxtaálagið hækkaði. Það er ekki allt gefið í þessum málum.

Fram undan eru gríðarlega erfiðir tímar í Evrópu og það verður ekki þannig að okkar landi verði hjálpað sérstaklega umfram önnur lönd, langt í frá. Það eru kostir við að ganga í ESB og það eru gallar við að ganga í ESB. Ég hef verið í hópi þeirra sem hafa sagt að það sé nauðsynlegt fyrr eða síðar að láta á það reyna hvað þetta þýðir en ég geri líka þá kröfu að menn undirbúi slíka aðildarumsókn almennilega. Að menn geri það ekki með þeim hætti sem hér er gert þar sem að baki liggur klofin ríkisstjórn í málinu. Það kemur fram t.d. hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann hyggst ekki greiða atkvæði (Forseti hringir.) með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir þannig að það er alveg augljóst hver staðan er. Menn verða að (Forseti hringir.) vinna þetta betur en upp er lagt með hér.