137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru til bæði málshættir og orðtök sem viðhafa mætti vegna þessarar ræðu. Einn af þeim væri þá sá sem snýr að glerhúsi og steinum. Það er alveg furðulegt að heyra einn af talsmönnum ríkisstjórnarinnar tala um að það hafi tekið langan tíma og verið erfitt fyrir stjórnarandstöðuna að koma saman tillögu sinni í þessu máli.

Ég veit ekki betur en að hér hafi allt leikið á reiðiskjálfi vikum saman þegar ríkisstjórnarflokkarnir reyndu að koma sér saman í málinu og mistókst það. Stjórnarandstaðan kemur hér sameinuð með ábyrgan tillöguflutning um hvernig standa eigi að þessum málum, hvernig eigi að vinna þetta. Það má segja sem svo að það er gott að fá ferska vinda og nýja inn í þingið og ég tek eftir því að þingmaðurinn er einn af þeim hv. þingmönnum sem kýs að nota hér ekki bindi, sem er svo sem bara hans ákvörðun. En það eitt og sér gerir menn ekki nútímalega, (Forseti hringir.) málefnalega eða ferska í umræðunum.