137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:10]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi umræða hefur verið nokkuð athyglisverð og kostuleg á köflum. Hér hefur farið fram nokkuð ítarleg umræða um málsmeðferð og hvernig verklagi skuli háttað en lítil umræða hefur verið um efni málsins.

Þó hefur eitt staðið upp úr, það er mikill samhljómur um það á Alþingi Íslendinga að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Það er ekki spurning um hvort sækja skuli um aðild ef marka má umræður þorra þingmanna, ekki allra að sjálfsögðu, heldur hvenær. Það er það sem við höfum rætt í dag, málsmeðferð, verklag og hvenær sótt verði um aðild og það er gott og gilt. Við erum stödd við upphaf langs og ítarlegs ferlis sem nær inn í næstu vikur og inn í sumarið þar sem nefnd um utanríkismál mun fjalla um þetta mál mjög ítarlega. Við erum því á upphafspunkti vonandi mjög vandaðrar málsmeðferðar. Til þess eru refirnir skornir, er ekki (Forseti hringir.) þingmaðurinn sammála því? Eins og hann sagði áðan skulum við láta á það reyna, sækjum um aðild (Forseti hringir.) og nefndin færir það síðan út.