137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:11]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega það sem tillaga Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gengur út á, að nú þegar verði sett af stað sú vinna sem lýst er í þingskjalinu. Þegar þeirri vinnu er lokið, þegar þær upplýsingar liggja fyrir, taki Alþingi Íslendinga afstöðu til þess hvort halda eigi að áfram og hvort sækja eigi um aðild að ESB. Það tel ég vera skynsamlega og málefnalega aðferð við að komast að niðurstöðu úr því að ríkisstjórnin fór þá leiðina að segja: Við treystum okkur ekki til þess að fara af stað, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hefði auðvitað til þess fullar heimildir þar sem um er að ræða framkvæmdarvaldið og rétt þess til að fara af stað með slíka vinnu. Úr því að málið er í höndum þingsins með þessum hætti er eðlilegt að við vinnum þá vinnu eins og komið hefur fram í tillögu stjórnarandstöðuflokkanna. Síðan þegar sú vinna hefur verið unnin verði tekin (Forseti hringir.) afstaða til þess hvort haldið verður áfram á þessari braut.