137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er komin hér upp til þess að lýsa yfir ánægju minni með málflutning hv. þm. Illuga Gunnarssonar. Það er nákvæmlega þetta sem við þurfum að huga að þegar við stöndum í þessum sporum. Það er stjórnarskráin sem er æðri öðrum lögum og hana verðum við að virða. Það er hún sem stendur vörð um rétt þegnanna til að búa í þessu landi og í þeim ríkjum þar sem stjórnarskrá er í gildi.

Eins og málið er sett fram í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar, sem hún stendur ekki öll að, er byrjað öfugum megin. Fyrst er byrjað á að taka ákvörðun og að lokum á jafnvel að breyta stjórnarskrá.

Stjórnarskrá má aldrei breyta undir þeirri pressu sem felst í tillögu ríkisstjórnarflokkanna, að næstu kosningar snúist raunverulega um já eða nei, aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Það er hættan í þessu. Þess vegna leggjum við framsóknarmenn og sjálfstæðismenn fram þessa þingsályktunartillögu með málsmeðferð.