137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ísland á heima í nánu samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir, ég held að ég hafi þetta rétt eftir hv. þingmanni sem hún sagði í ræðu sinni. Ég verð að segja að þar er ég algerlega sammála þingmanninum. Ég vil taka fram að enginn þeirra sem mælir gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu talar gegn nánu samstarfi okkar við aðrar Evrópuþjóðir. Við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Við erum aðilar að fjórfrelsinu og við erum nú þegar í afar nánu samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir. Við höfum sent þessi skilaboð um margra ára skeið og ég held að enginn efist um að við séum í nánu samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir. Þingmaðurinn talaði um að þetta væri minnimáttarkennd hjá okkur. Mér finnst það vera ákveðin minnimáttarkennd að halda því fram að eina leiðin til að fólk fái það á tilfinninguna að við séum Evrópubúar og við séum í nánu samstarfi við Evrópuþjóðir sé að ganga í Evrópusambandið. Ég vil andmæla þessu.

Ég vil líka, og vísa til umræðna okkar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur áðan, taka fram að það er skoðun mín að það sé hlustað á okkur. Við höfum margvísleg tæki til að láta til okkar taka á mótunarstigi ESB-gerða en við höfum ekki verið að nota þau. Ég held, burt séð frá skoðunum mínum eða hv. þingmanns, að það verði að liggja klárt og kvitt fyrir að Ísland er í nánu samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir.