137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þingmaðurinn er ósammála því að áhrif okkar innan EES-samningsins séu eins mikil og ég vildi gefa til kynna. Ég er ósammála hv. þingmanni um að áhrif okkar innan Evrópusambandsins verði með þeim stórkostlega hætti sem hún vill vera láta. Við höfum haft áhuga á því að hafa áhrif á EES-samninginn. Við höfum haft reglur hér í þinginu allt frá upphafi EES-samningsins. Við höfum bara ekki farið eftir því. Það er ekki einbeittur brotavilji heldur er það einfaldlega það að ekki hafa verið settir í það nægir fjármunir, nægur mannafli, nægir „rísorsar“ ef ég má sletta aðeins og þess vegna höfum við ekki sinnt því.

En ég held að það hafi verið pólitískur áhugi á því að við stæðum okkar plikt og sinntum þessu betur. En við erum lítil og fámenn og það þó Samfylkingin haldi því fram að margt muni koma til með að breytast með Evrópusambandsaðild þá held ég að okkur fjölgi nú ekki (Forseti hringir.) í einu vetfangi þannig að við höfum fleiri líkama til þess að manna (Forseti hringir.) stöðurnar í Brussel.