137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og fleiri trúboðar þá lifir hv. þingmaður í núinu og sér hvorki framtíð né fortíð, lærir ekkert af fortíðinni um hvernig Evrópusambandið hefur þróast né áttar sig á því hvað gerist með Ísland í Evrópusambandinu í framtíðinni. Hún notar loforð, töfrabrögð og fagurgala í bland við hótanir. Hún segir: „Það er engin önnur leið til.“ Það er hótunin. Og svo segir hún að allt verði miklu betra þegar við göngum inn, að við fáum að hafa áhrif þarna og allt svoleiðis. Það eru loforðin og töfrabrögðin.

Hv. þingmaður ætti að geta þess að Ísland mun ekki uppfylla Maastricht-skilyrðin fyrr en í fyrsta lagi eftir sex, átta, tíu ár, hugsanlega 30 ár vegna þess að Evrópusambandið kúgaði þjóðina, þetta sama Evrópusamband. Þetta elskulega Evrópusamband er búið að kúga þjóðina til að taka yfir Icesave-skuldbindingarnar sem Ísland á ekki að taka yfir, sem eru mistök í regluverki Evrópusambandsins.

Svo segir hv. þingmaður að ASÍ og Samtök iðnaðarins séu með þessu. Það eru hvor tveggja samtök sem fá sitt félagsgjald á hreinu, annað með lögum og hitt með útilokun á vinnuaðstöðu þannig að þetta eru hvor tveggja samtök sem nota sér það að fá iðgjöld frá fólki sem hugsanlega vill alls ekki ganga í Evrópusambandið og nota þessa sömu peninga til þess að berjast fyrir því að ganga í Evrópusambandið. (Fél.- og trmrh.: Hvaðan fær Sjálfstæðisflokkurinn peninga?) Þeir eru búnir að breyta samtökunum í stjórnmálaflokk.

Talandi um að menn geti haft áhrif og að þetta sé oflætis- eða minnimáttarkennd. Ég vil geta þess að við fáum reyndar þrjá af (Gripið fram í.) 600 þingmönnum. Ókey, það eru heilmikil áhrif. En ég ætla að benda hv. þingmanni á að ég hef vissu fyrir því að þýska atkvæðið vegi miklu þyngra en öll önnur atkvæði vegna þess að þeir borga allt batteríið. (Forseti hringir.)