137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:31]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni verður tíðrætt um hinn meinta opna tékka sem felist í þeirri tillögu sem lögð hefur verið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það stendur auðvitað ekki til að ganga fram hjá þinginu hvað það varðar, auðvitað mun þingið fylla út í þann tékka og auðvitað mun þingið í þinglegri meðferð þessarar tillögu taka afstöðu til þess hvernig það vill haga viðræðunum nákvæmlega. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að utanríkismálanefnd eigi að leika þar lykilhlutverk og ég er þeirrar skoðunar að öll sú vinna sem greind er í tillögu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eigi að fara fram í sumar í utanríkismálanefnd að samþykktri þeirri tillögu sem ríkisstjórnin leggur fram núna. Ágreiningurinn stendur bara um einn hlut: Ætlum við að sækja um aðild að Evrópusambandinu núna, taka þá grundvallarákvörðun sem er mjög mikilvæg fyrir atvinnulífið í landinu, sem öll helstu hagsmunasamtök, jafnt launþegamegin sem atvinnurekendamegin, kalla eftir, sem er mjög mikilvæg til þess að hægt sé að leggja hér grunn að sjálfbærum efnahagslegum stöðugleika? Eða ætlum við enn einn ganginn að tefja þetta mál?

Það þýðir lítið að nefna 31. ágúst sem niðurstöðudag fyrir þessa nefnd því að það er alveg ljóst að þá þarf að hefja að nýju umfjöllun málsins í þinginu. Af fenginni reynslu og vegna þeirra fjöldamörgu þröskulda sem lagðir hafa verið í veg þessara hugmynda sé ég þann kost vænstan að við vinnum málið með faglegum hætti í utanríkismálanefnd í sumar, að tekinni þessari ákvörðun sem er mjög mikilvægt að taka sem fyrst. Auðvitað á að taka ákvörðun um aðildarumsókn fyrir lok júnímánaðar, það liggur í augum uppi. Annars værum við ekki að ræða þetta hér á þessu sumarþingi.