137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi mjög svo skýru svör sem eru í hróplegu ósamræmi við það sem hv. formaður utanríkismálanefndar talaði um áðan að búið væri að taka ákvörðun um að klára þetta í júnímánuði. Hæstv. ráðherra staðfesti þá sögusögn sem uppi er. Þá vil ég hvetja hv. þingmenn Vinstri grænna sem eru í salnum til þess að kynna sér málið og vita að þeir hafa ekki tækifæri til að ræða þessi mál nema til júníloka.

Þingið á að fylla út tékkann, segir hæstv. ráðherra. Það er nákvæmlega það sem ég var hrædd um og fór aðeins yfir í ræðu minni að hið svokallaða samráð stjórnarflokkanna hræðir. Það er ekki samráð að koma með eitthvað og segja svo: Þetta leggjum við til. Viljið þið vera með, viljið þið — eins og í þessu tilfelli — hjálpa okkur við að koma þessu í gegn? Ýmsir hv. þingmenn Vinstri grænna (Gripið fram í.) hafa lýst því yfir að þeir ætli ekki að styðja þetta mál. Samfylkingin er orðin drulluhrædd um að málið komist ekki í gegn og ég held að þeim væri best að íhuga og skoða tillögu okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna vegna þess að ég held að það séu miklu meiri líkur á að hún fari í gegn. Ég heyri það á málflutningi hv. þingmanna Vinstri grænna að þeir eiga mun meiri samleið með málsmeðferð okkar.

Reyndar er það svo að hv. þm. Atli Gíslason hefur ákveðið að sitja hér og hlusta og fræðast um hvað er að gerast í stað þess að tjá skoðanir sínar og það kemur að vissu leyti á óvart. Við vitum svo sem hver skoðun hans er og við vitum að hann vill ekki frekar en velflestir þingmenn Vinstri grænna (Gripið fram í: … kominn í andsvör.) fara inn í Evrópusambandið. (Forseti hringir.)

Fyrst hv. þm. Árni Þór Sigurðsson (Forseti hringir.) er mættur væri fróðlegt að heyra álit hans á júníspurningunni.