137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við um tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Fyrir þessari tillögu mælti hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson. Ljóst er að um þetta mál eru deildar meiningar bæði innan einstakra stjórnmálaflokka og meðal þjóðarinnar allrar. Nú þegar málið er komið inn í þingið er mikilvægt að hver og einn fylgi sannfæringu sinni og að málið fái málefnalega meðferð. Það er sameiginleg niðurstaða stjórnarflokkanna að afdrif þessa máls muni ekki hafa áhrif á samstarf innan ríkisstjórnarinnar enda er þessi ríkisstjórn ekki mynduð um það mál eitt að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ég sakna þess að lítið hefur borið á því að þingmenn tali málefnalega um það mál sem hér er til umræðu, dragi fram sínar persónulegu skoðanir á Evrópusambandinu og hvort möguleg aðild að sambandinu sé það sem sé íslensku þjóðinni fyrir bestu. Mín skoðun varðandi þetta mál er mjög skýr, ég tel Íslandi best borgið utan ESB. Evrópusambandið felur í sér dýpra og víðtækara samstarf milli aðildarríkja og dregur úr möguleikum til sjálfstæðrar ákvarðanatöku í hinum ýmsu málaflokkum. Sambandið getur sjálft sett lög sem gilda sjálfkrafa í öllum aðildarríkjum og síaukin völd eru flutt frá aðildarríkjum til Brussel.

Sambandið starfar á sviðum frá heilsugæslu og efnahagsmálum að utanríkis- og varnarmálum. Dæmi um mál sem eru á höndum Evrópusambandsins eru peningastefna, landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál, viðskipti, umhverfismál o.fl. Í framkvæmdastjórn ESB sitja nú 27 kommissarar, einn tilnefndur af hverju aðildarríki. Á Evrópuþinginu sitja alls 785 kjörnir fulltrúar og þar af fimm frá Möltu sem er fámennasta ríki sambandsins með um 400 þúsund íbúa. Ef við göngum út frá því að Ísland fái þar kjörinn sama fjölda fulltrúa og Malta eða fimm talsins erum við með innan við 1% af kjörnum fulltrúum á þinginu og dæmi svo hver fyrir sig um áhrif Íslendinga innan sambandsins.

Evrópusambandinu fylgir mikil samþjöppun valds á sama tíma og krafan um aukið lýðræði er mjög hávær, sér í lagi í íslensku samfélagi. Áhugi almennings á störfum Evrópuþingsins er að jafnaði mjög lítill. Kemur það m.a. fram í lítilli kosningaþátttöku til Evrópuþingsins sem víða er minni en til þjóðþinga og dæmi eru um að það séu innan við 20%.

Einnig má nefna að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna samræmir Evrópusambandið afstöðu aðildarríkja sinna og talar nær alltaf einni röddu á allsherjarþinginu gegnum fulltrúa þess ríkis sem fer með formennsku hverju sinni. Innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, fer Evrópusambandið með samningsumboð allra ríkja. Evrópusambandið talar auk þess einni röddu á öllum stórum alþjóðaráðstefnum Sameinuðu þjóðanna þannig að einstök aðildarríki koma þar ekki fram með sjálfstæðum hætti. Ef Ísland yrði aðili að ESB mundi sjálfstæð rödd þess að mestu hljóðna hjá Sameinuðu þjóðunum og á alþjóðaráðstefnum á þeirra vegum.

Það er alveg ljóst hvert Evrópusambandið stefnir, samruni í átt að sambandsríki sambærilegu Bandaríkjum Norður-Ameríku er markmiðið og er Lissabon-sáttmálinn dæmi um skref í þá átt. Um það ríkja miklar deilur og má nefna þjóðaratkvæðagreiðslu í Íran um Lissabon-sáttmálann í því samhengi þar sem sáttmálinn var felldur og á reyndar að fara aftur í atkvæðagreiðslu nú síðar á þessu ári.

Evrópusambandið hefur tekið yfir fjölþætt verkefni af aðildarríkjum, t.d. á sviði utanríkis- og öryggismála. Í Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins er kveðið á um skyldu aðildarríkja til að leggja af mörkum til sameiginlegra varna og öryggismála ESB. Samkvæmt þessu er einnig kveðið á um að ESB hafi sameiginlega öryggis- og varnarstefnu. Aðildarríkin skulu útvega það sem þarf til, t.d. til hernaðaraðgerða bæði innan og utan sambandsins. Það sjá allir hvert stefnir þarna. Virðulegi forseti. Menn verða að gera sér grein fyrir því að ef Ísland gengur í ESB göngum við í samband sem stefnir að því að verða hernaðarbandalag og þá er Ísland ekki lengur hlutlaust ríki.

Evrópusambandsaðild mundi veikja fæðuöryggi Íslands og byggðir landsins, það er staðreynd. Bændasamtök Íslands, Landssamband sláturleyfishafa og fleiri hafa farið ítarlega yfir þessi mál og ég hvet þingmenn til þess að kynna sér það sem þeir hafa gefið út í þessum efnum. Niðurstaða þessa er sú að Evrópusambandsaðild mundi þýða endalok fyrir íslenskan landbúnað eins og hann er í dag og menn skulu bara viðurkenna það ef það er það sem þeir vilja. Allar vangaveltur um annað eru byggðar á misskilningi og lítilli þekkingu á innviðum íslensks landbúnaðar.

Hvað varðar sjávarútveg er gríðarlega mikilvægt að Íslendingar fari með öll mál þegar kemur að íslenskum sjávarútvegi, bæði hvað varðar eigin fiskveiðistjórn og samninga við nágrannaríki. Evrópusambandið hefur átt í miklum vandræðum með sjávarútvegsstefnu sína og nýlegar yfirlýsingar um að sambandið hyggist flytja valdið í auknum mæli frá Brussel til aðildarríkja sýna þau vandamál sem sambandið er í. Það er hins vegar ekki komið í gegn og þrátt fyrir að svo væri minni ég á að þessari aðgerð er hægt að breyta aftur og um það mundu Íslendingar hafa lítið að segja því að þeir yrðu jú með fimm menn á Evrópuþinginu eða innan við 1%.

Það liggur ljóst fyrir að komist Alþingi að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu verður það ávallt í höndum íslensku þjóðarinnar að hafna eða samþykkja slíkan samning, það er staðreynd. Um aðildarviðræður og aðildarumsókn eru skiptar skoðanir en ég skil ekki tímasetninguna á aðildarviðræðunum, hvorki þingsályktunartillöguna sem utanríkisráðherra hefur mælt fyrir né tillögu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem felur í sér aðildarumsókn að Evrópusambandinu, mér hugnast hvorug þessara tillagna. Ég skil reyndar ekki að sú seinni sé alltaf að taka breytingum. En hvorug tillagan hugnast mér og raunar gerði ég þann fyrirvara við stuðning þessarar ríkisstjórnar um að ég mundi ekki styðja aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Í mínum huga er núverandi tímasetning í ofanálag algjörlega röng. Fyrir liggja mjög stór, erfið og umfangsmikil verkefni hér á landi sem mikilvægt er að takast á við af fullum krafti, t.d. að tryggja að gjaldeyristekjur landsins dugi til að standa undir erlendum skuldbindingum og nauðsynlegum innflutningi, að koma bankakerfi landsins í gang og ná jafnvægi á ríkisfjármálunum. Í því sambandi minni ég á að halli ríkissjóðs á þessu ári verður um 170 milljarðar. Já, virðulegi forseti, halli ríkissjóðs verður yfir 500 þúsund á hvern Íslending á þessu ári. Þeim halla þarf að ná niður og það er gríðarlega stórt og erfitt úrlausnarefni. Það er ástæða þess að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa rætt við aðila vinnumarkaðarins og fleiri um að ná þjóðarsátt um það sem fram undan er.

Um Evrópusambandið eru jú skiptar skoðanir, eins og ég hef komið inn á, en ég er þeirrar skoðunar að aðild að Evrópusambandinu aðstoði okkur á engan hátt í þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir. Það er mjög slæmt að binda mannskap, embættismenn, í ráðuneytum, eyða dýrmætum tíma í þinginu og eyða fjármunum í þessar viðræður á næstu árum á sama tíma. Fyrir liggur niðurskurður á öllum sviðum samfélagsins.

Að undanförnu hefur Evrópusambandsumræðan verið drifin áfram af umræðu um lækkun vaxta, afnám verðtryggingar og upptöku evru. Þeir þættir nást ekki í gegn um leið og gengið er inn í Evrópusambandið. Það er lykilatriði að hér á landi ríki góð og sterk hagstjórn og að við Íslendingar náum tökum á þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir. Ég er því fylgjandi að skoða alla möguleika hvað varðar myntstefnu Íslendinga og vil að slík vinna sé sett í gang en ég vara við því að Evrópusambandsumræðan sé hvött áfram á þeim forsendum sem gert hefur verið.

Að lokum vil ég segja að við skulum hafa það hugfast um hvað Evrópusambandið snýst raunverulega og að það skuli vera að þróast í þá átt að verða eitt ríki. Í því sambandi er mikilvægt að spyrja sig hvernig Evrópusambandið verði, ekki eftir 2–3 ár heldur eftir 30–40 ár eða 50–100 ár og hver staða, möguleikar og sjálfsákvörðunarvald Íslendinga innan sambandsins verða bæði nú og þá.

Með leyfi forseta, vil ég vitna í orð sem norskur sérfræðingur í Evrópumálum lét falla í Kastljóssþætti 19. maí sl. þar sem hann spurði Íslendinga að því að ef Evrópusambandið væri svarið, hver væri þá spurningin.