137. löggjafarþing — 9. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[18:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði viljað heyra hæstv. fjármálaráðherra útskýra betur hvaða áhrif hann gerir ráð fyrir að þessar verðhækkanir hafi á vísitöluna sem mikið af lánum almennings eru reiknuð út frá og hvaða áhrif þetta muni þá hafa á lánin. Við höfum mikið rætt það hér á síðustu vikum og mánuðum hversu mikill vandi hækkanir á fasteignalánum og öðrum lánum almennings er þó að reyndar sé hæstv. félagsmálaráðherra, sem ekki er hér staddur, ekki sammála því, telur þetta ekki áhyggjuefni. Ég held hins vegar að flestir séu þeirrar skoðunar að það sé mikið áhyggjuefni hversu mikið þessi lán hafa hækkað svo að við hljótum að setja aðgerðir sem þessar í samhengi við það. Þar af leiðandi spyr ég ráðherrann hvort lagt hafi verið mat á þessi áhrif. Ég vil raunar ítreka það sem rætt hefur verið í þinginu áður að ekki er búið að sýna fram á það af hálfu þessarar ríkisstjórnar hvernig hún ætlar að fara að því að skapa verðmæti með skattahækkunum. Sér ríkisstjórnin fyrir sér að þeir 4,4 milljarðar sem hún áætlar að fá í tekjur af þessu feli í sér einhverja raunverulega verðmætasköpun?